140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi strax í upphafi vekja athygli á strandsiglingunum. Það hefur áður gerst á þessum þingum að mikill áhugi væri á því að koma á strandsiglingum en síðan skort upp á að það skref sé stigið sem þarf til að koma þeim á. Þess vegna varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með að í þessari samgönguáætlun skuli ekki vera gert ráð fyrir fjármagni til þess. Ég held meira að segja að nú þegar sé afmarkað ákveðið fjármagn til að ráðast í að minnsta kosti undirbúning málsins.

Fyrir mér eru strandsiglingar hluti af almannaflutningakerfinu og þjóðvegakerfi landsins og annaðhvort er mögulegt eða ekki að koma þeim á. Það getur þurft að styrkja þær af hálfu ríkisins, eðlilega, alveg eins og gert er með þjóðvegi og aðrar samgönguleiðir en ég hefði viljað sjá stigin raunveruleg skref og þeirra sæi stað í samgönguáætluninni.