140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir andsvarið og fyrir að taka undir þessi sjónarmið. Ég hygg að við þurfum að gera málamiðlanir og ræða betur saman og forgangsraða nákvæmlega eftir ákveðnum formúlum. Úrlausnin er ljós, menn þekkja hættulegu kaflana, menn vilja umferðaröryggi og það er nánast hægt að koma upp einhverju punktakerfi um hvaða framkvæmdir séu brýnastar, hvaða framkvæmdir skori mest í öryggispunktakerfi þar sem líka er tekið tillit til hagkvæmni, sparnaðar, byggðasjónarmiða o.s.frv.

Málið fer til nefndar milli 2. og 3. umr. og ég vonast til að þessi sjónarmið hv. þingmanns og okkar í minni hlutanum komi til nákvæmrar og gagngerrar skoðunar þar. Það er ekki eins og nefndin sé klofin í djúpum ágreiningi. Við leggjum sömu sjónarmið til grundvallar. Við tökum út úr Strandirnar, Hornafjarðarfljót og viðhaldið sem ég tel mjög brýnt og þurfi meira í.

Svo spyr hv. þingmaður erfiðrar spurningar. Hvernig stendur á þessu? Af hverju er vegakerfið í sumum landsfjórðungum í betra ásigkomulagi en öðrum? Ég kann ekki beina skýringu á því. Hugsanlega hafa þingmenn í viðkomandi kjördæmi verið duglegri að koma sínum málum fram á fyrri árum. Einhvern tíma var því haldið fram í mín eyru að það skipti miklu máli að hafa samgönguráðherra úr viðkomandi kjördæmi og það hafi sést í hinu eldra Norðurlandskjördæmi vestra á sínum tíma og hafi komið fram í Borgarfirði og Snæfellsnesi enn síðar. Það kann vel að vera. En þessar einbreiðu brýr um Austurlandið og Suðausturlandið eru til vansa frá Klaustri og að Höfn, þetta eru á milli 25 og 30 brýr á þjóðvegi 1.