140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:46]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt þessum orðum hv. þingmanns hafa ráðherrarnir Halldór Blöndal og Kristján L. Möller ekki staðið sig í kjördæmi sínu hvað einbreiðar brýr snertir. Í framhaldi af þessum orðaskiptum okkar hv. þingmanns langar mig að spyrja aðeins um aðgerðir til byggðajöfnunar. Ég vil kynjajöfnuð, ég vil launajöfnuð, ég vil jafnan aðgang fólks að lífsgæðum en ég vil líka byggðajöfnuð. Þegar helsta verksmiðja landsins sem flytur út vöru fyrir þriðjung útflutningstekna okkar býr við vegleysur eins og í Fjarðabyggð, þá spyr maður sig hvaða kröfur fólk hringinn í kringum landið á til að fá álíka mikið fyrir skattpeninga sína og aðrir. Þetta er ef til vill heimspekileg spurning en stundum þurfum við að spyrja okkur stórra spurninga á hinu háa Alþingi. Er hv. þingmaður sammála mér að fólk hringinn í kringum landið eigi að fá (Forseti hringir.) á að giska jafnmikið fyrir peningana sína þegar kemur að slíkum mannréttindamálum sem samgöngubætur eru?