140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þessa ábendingu forseta sem er auðvitað hárrétt. Ég veit ekki af hverju þetta settist í höfuð þingmannsins en það gerðist. En þetta er auðvitað þingsályktunartillaga.

Ég veit að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hugsar oft og títt um landsbyggðina og ber hag hennar fyrir brjósti. Ég hef sjálfur leyft mér að vísa í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar um að menn eigi að njóta jafns réttar óháð búsetu. Það er niðurstaða mín eftir stjórnmálaferil minn frá árinu 2006 að svo sé ekki, því miður. Það þarf að gera einhverja úttekt á því. Hvernig stendur til dæmis á því að hrunið hefur bitnað meira á þjónustu á landsbyggðinni en þeim svæðum landsins þar sem loftbóluvitleysan grasseraði?