140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[15:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að málið komst aftur á dagskrá á þessum fundi svo að ég geti farið yfir þær spurningar sem vöknuðu fyrr í morgun þegar málið var til umræðu. Mikil vinna liggur á bak við samgönguáætlun og sitt sýnist hverjum um forgangsröðun verkefna. Fyrir liggja breytingartillögur frá meiri hlutanum og jafnframt frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar og ýmsum þingmönnum.

Það sem vakti helst spurningar hér í morgun var það að þær breytingartillögur meiri hlutans sem snúa að flýtingu framkvæmda, miðað við umræðuna sem fram hefur farið í þingsal og í fjölmiðlum, séu háðar því að frumvarp það sem verið hefur til meðferðar í þinginu varðandi veiðigjaldið eða veiðiskattinn fari í gegn. Það var ætlun meiri hlutans að nota þá fjármuni til að fjármagna þessi verkefni. Mér finnst því eðlilegt að spyrja: Hvað gerist ef frumvarpið um veiðigjaldið fer ekki í gegn? Ef gerðar verða meiri háttar breytingar á því máli verður þessi breytingartillaga þá dregin til baka?

Ég átta mig á því að þeim sem flytja þessar tillögur er ákveðinn vandi á höndum að reyna að klára umræðuna þegar þessum spurningum er ósvarað og ekki liggur ljóst fyrir hvernig málum lyktar varðandi veiðigjaldið. Það kennir okkur kannski að það eru ekki góð vinnubrögð að úthluta skattfé almennings áður en ljóst er hvort heimild verði veitt frá Alþingi til að innheimta þá skatta. Ég held að þetta eigi að vera okkur lærdómur til framtíðar að ástunda ekki þessi vinnubrögð. En þetta lítur þannig út að hér sé verið að setja fram tillögu um að flýta framkvæmdum — og ég tek það fram að þessar framkvæmdir eru allar mikilvægar og góðra gjalda verðar — til að reyna að fá fólk til að fallast frekar á að innheimta þann skatt sem veiðigjaldið er. Mér finnst orka tvímælis að viðhafa þá aðferðafræði.

Mig langar í örfáum orðum að minnast á þau verkefni sem talin eru upp í breytingartillögunni. Hér er til dæmis mjög mikilvægt verkefni sem er nýsmíði Herjólfs. Ætlunin er að leggja 500 millj. kr. í það verkefni á árinu 2013, og það er ágætt. Ég taldi að það hefði átt að koma fram í þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram í upphafi þegar málið var lagt fram á þingi. Það hefur auðvitað legið fyrir allan tímann, frá því að ákvörðun var tekin um að ráðast í gerð Landeyjahafnar, að jafnframt þyrfti nýjan Herjólf. Við hönnun hafnarinnar er ekki gert ráð fyrir jafndjúpristu skipi og gamli Herjólfur er og allan tímann hefur legið fyrir að nýtt skip þyrfti. Þess vegna hélt maður að fjárveiting í þetta verkefni yrði til staðar í framlagðri samgönguáætlun, að ekki þyrfti að fiffa hlutina eins og við sjáum í umræddum breytingartillögum.

Herra forseti. Það er mikilvægt við gerð samgönguáætlunar til langs tíma að menn reyni að átta sig á því hvernig á að byggja hana upp. Hægt er að ráðast í ógrynni verkefna sem öll eru mikilvæg. Á hringveginum eru til dæmis einbreiðar brýr og mikið hefur farið fyrir því í umræðunni að úr því þurfi að bæta, og ég er sammála því. Brúin yfir Hornafjarðarfljót, sem við töluðum um fyrr í umræðunni, er til dæmis verkefni sem er gríðarlega mikilvægt að ráðast í hið fyrsta. En við þurfum auðvitað að ákveða forgangsröðina. Á að forgangsraða út frá því hvernig framkvæmdum er dreift yfir landið eða eiga önnur sjónarmið að verða ofan á?

Jafnframt hefur komið fram að verulega skortir á viðhaldsfé. Það skortir á að nægilegir fjármunir séu tryggðir í viðhaldsverkefni. Á undanförnum árum og áratugum höfum við byggt upp okkar vegakerfi og það þarf sitt viðhald. Á meðan þungaflutningar fara mestallir fram á landi þá hefur það áhrif á vegakerfið og ég tel mjög slæmt að viðhaldi sé ekki sinnt sem skyldi. Þegar að því kemur að ráðist verði í að laga þá vegi sem liggja undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi þá verður mun dýrara að fara í þær framkvæmdir en ef jafnt og þétt er farið í þessi mál. Við sem keyrum vítt og breitt um landið, þingmenn sem eru á ferð um kjördæmi sitt, jafnvel á höfuðborgarsvæðinu, sjáum að verulega skortir á að viðhaldi sé sinnt sem skyldi. Við fáum um það tölvupósta og hringingar um að þetta sé orðið verulegt vandamál. Við eigum að sjálfsögðu að gæta þess að kasta ekki krónunni til að spara aurinn og reyna að hirða um þau mannvirki sem við þegar höfum lagt umtalsverða fjármuni skattgreiðenda í.

Þá er komið að því hvaða nýframkvæmdir eigi að ráðast í, hvernig eigi að forgangsraða þar. Að mínu viti er mikilvægasta sjónarmiðið í þeim efnum að forgangsraða í þágu umferðaröryggis. Því miður eru enn ýmsir kaflar á vegakerfinu okkar hættulegir og er mikilvægt að horfa til þeirra þegar samgönguáætlun er unnin. Fyrir liggja skýrslur og mat á því hvar hættulegustu kaflarnir eru og í áætluninni kemur fram að horft sé til þessa sjónarmiðs. Í nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn fagnar aukinni áherslu á umferðaröryggi í samgönguáætlun og telur brýnt að stefnt verði markvisst að því að auka öryggi í samgöngum. Það hlýtur að verða forgangsverkefni stjórnvalda til framtíðar hverju sinni að draga verulega úr líkum á alvarlegum slysum og banaslysum.“

Við fögnum því öll að þetta sjónarmið sé lagt til grundvallar. En þá vaknar spurningin: Hvernig sjáum við þess stað í þeirri áætlun sem birtist okkur? Þegar maður horfir á breytingartillögurnar sem liggja fyrir — og ég tek það aftur fram að ég er ekki á móti þeim verkefnum sem hér eru talin upp, þvert á móti — verður maður hugsi. Tengjast þau verkefni sem hér eru nefnd sjónarmiðum um umferðaröryggi eða byggjast þau á einhverjum allt öðrum sjónarmiðum? Ég geri mér grein fyrir því að framsögumaður málsins fór að einhverju leyti yfir það í framsögu sinni en mig langar að óska eftir því, ef það er mögulegt, að fá nánari upplýsingar um það hvernig þetta sjónarmið kristallast í breytingartillögunum sem lagðar eru fram. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig samhengið er þarna á milli.

Forseti. Eins og meiri hlutinn kemur inn á og þeir þingmenn sem tekið hafa þátt í þessum umræðum er jafnframt mikilvægt að vel verði búið að flugmannvirkjum þannig að samgöngur í flugi til og frá landinu og innan lands séu sem bestar. Við eigum að gæta þess að áherslan í umræðum um þessi mál verði ekki eingöngu á vegakerfið heldur þurfum við jafnframt að huga að því að fara yfir þá kafla sem varða flugið og siglingarnar. Þetta er áætlun sem byggt verður á til lengri tíma og við þurfum að hafa einhverja heildaryfirsýn yfir það sem við erum að gera.

Mig langar í örstuttu máli að minnast aðeins á Hornafjarðarflugvöll. Sá flugvöllur hefur ákveðna sérstöðu. Eftir að Vatnajökulsþjóðgarður kom til höfum við lagt áherslu á að reyna að styrkja þjóðgarðinn. Hann á að verða tæki til að efla bæði atvinnulíf og ferðaþjónusta heima í héraði. Byggðin í Skaftafellssýslum þarf verulega á því að halda að atvinnutækifærum sé fjölgað og innviðir styrktir og því er mikilvægt að við notum þau tæki og þau tól sem til staðar eru til að reyna að draga sem flesta ferðamenn á þetta svæði. Í því augnamiði tel ég rétt, og þá í samhengi við uppbyggingu þjóðgarðsins, að horfa til þess að efla flugvöllinn á Hornafirði þannig að hann geti tekið við vélum sem koma að utan. Bæði er þetta mikilvægt vegna ferðaþjónustunnar en ekki síður vegna öryggis í flugsamgöngum, og styttir að auki verulega vegalengdina til meginlands Evrópu, að geta lent þarna fyrir austan.

Eins og ég hef áður komið inn á hér í þingsal tel ég að þetta sé atriði sem þingið eigi að taka upp með það að markmiði að styrkja atvinnulíf, byggðina og þjóðgarðinn allt í einu lagi. Við tölum oft um að ferðaþjónustan sé mikilvæg, að hún eigi að vera ein af grundvallarstoðunum í atvinnulífi okkar, en þá verðum við líka að sýna það í verki með því að gera umhverfið þannig úr garði að hægt sé að byggja upp. Fyrir liggur nokkurra ára gömul skýrsla frá Flugmálastjórn um það hvernig breyta þurfi flugvellinum á Hornafirði til að gera þetta mögulegt. Ég tel mikilvægt að þingið fari að horfa á það til framtíðar hvernig hægt er að byggja upp þennan mikilvæga flugvöll.

Frú forseti. Mig langar að spyrja flutningsmenn breytingartillögu meiri hlutans út í eitt atriði — ég fagna því vissulega að lagt er til að flýta framkvæmdum um Hornafjarðarfljót um eitt ár, það er kominn tími til að taka það umferðarmannvirki úr notkun, það er eins og bylgjupappi í laginu og stórhættulegt — en það er atriði nr. 6 á listanum þar sem lagt er til að flýta framkvæmdum við gerð nýrrar brúar á Ölfusá um þrjú til fjögur ár. Ég get ekki séð annað en þetta eina verkefni sé tekið út á þann hátt að til mótvægis sé lagt til í tillögunni að gegn því að flýta brúnni yfir Ölfusá eigi að seinka framkvæmdum við breikkun vegar milli Selfoss og Hveragerðis um tvö ár. Mig langar að spyrja þá sem flytja þessa tillögu af hverju þetta sé gert. Ef við horfum aftur á sjónarmiðið sem ég tel að liggja eigi til grundvallar, sem er umferðaröryggi, þá vitum við öll að kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss er kannski sá kafli á þjóðveginum austur fyrir fjall þar sem slysatíðni hefur verið hvað mest.

Þá vaknar önnur spurning: Hvernig fær maður þessa forgangsröðun út ef umferðaröryggi er meginsjónarmiðið við röðun verkefna á þessum lista? Mig vantar að fá svör við þessari spurningu frá nefndarmönnum en nefndarmenn eru ekki við umræðuna. Getur forseti kannski upplýst hvort nefndarmenn eru á fundi, ég áttaði mig á því að þeir höfðu óskað eftir …

(Forseti (SIJ): Forseti mun kanna hvar nefndarmenn eru og koma þeim skilaboðum áleiðis að þeirra sé óskað.)

Takk kærlega, herra forseti. Mig vantar svör við þessum spurningum, get svo sem komið þeim til framsögumanns og hann gæti þá svarað þeim í seinni ræðu sinni. Ég ætla ekki að gera mikil læti út af því að nefndarmenn séu ekki hér. Upplýst hefur verið að þeir þurftu að setjast yfir ákveðin atriði vegna fjármögnunar þessara tillagna, ég átta mig á því.

Herra forseti. Ég hef ekki vikið að stærri áætluninni sem er samgönguáætlun 2011–2022. Hún er gríðarlega efnismikið plagg. Hér er grunnnetið skilgreint, þeir flugvellir sem eru í grunnnetinu. Talað er um markmið um jákvæða byggðaþróun, skilgreindar þær hafnir sem skulu vera í grunnnetinu sem og vegir og síðan er reynt að fara yfir í afskaplega grófum dráttum, því að þetta er áætlun til mjög langs tíma, þau verkefni sem brýnt er að ráðast í. Hér er um það efnismikið plagg að ræða að maður þyrfti að hafa meiri tíma og ráðrúm til að fara ítarlega yfir það. En um áætlun til lengri tíma er að ræða sem er þá hægt að breyta þegar fram er haldið.

Ég vil sérstaklega fagna markmiðum áætlunarinnar þar sem mikil áhersla er lögð á öryggi í samgöngum. Eitt helsta markmiðið er að stefna að því að verulega dragi úr líkum á alvarlegum slysum og banaslysum. Grípa á til sérstakra aðgerðaáætlana í því skyni á öllum sviðum samgangna, á vegum landsins, í fluginu og úti á sjó. Lagt er upp með að þær aðgerðaáætlanir verði hluti af hverri fjögurra ára samgönguáætlun og þess vegna komi áætlanir varðandi öryggið til endurskoðunar á tveggja ára fresti. Ég tel það mjög gott markmið og einfaldlega til fyrirmyndar. Síðan eru hér þær áherslur sem ætlunin er að leggja til að ná þessu markmiði, og því ber að fagna.

Herra forseti. Við þekkjum það sem búum á Íslandi að öryggi í samgöngum og öflugar samgöngur eru lykillinn að því að byggðirnar í landinu haldist, hvort sem er á suðvesturhorninu eða úti á landi. Öflugar samgöngur tryggja að atvinnulífið geti blómstrað og að íbúar geti sótt vinnu milli byggðarlaga og tryggja að öruggt sé að tengingar við höfuðborgarsvæðið séu fyrir hendi með fullnægjandi hætti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Mig langaði að ítreka spurningu mína til nefndarmanna en ég spurði hversu ríkan þátt umferðaröryggissjónarmið ættu í þeim breytingartillögum sem fram hafa komið frá meiri hlutanum. Eins og ég sagði er það að sjálfsögðu fullnægjandi fyrir mig að nefndarmenn svari því í seinni ræðum sínum í þessu máli.