140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[15:35]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð því miður að fara fram í svolitla stund undir ræðu hv. þm. Unnar Brá Konráðsdóttur en ég vil bregðast aðeins við ræðu hennar og kannski spurningum. Hún nefndi að þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til af nefndinni væru hugsanlega á veikum grunni byggðar. Ég vil segja að vonandi gengur það eftir að það fjármagn náist sem vonast er til að komi inn með veiðigjöldum og að sá hluti veiðigjaldanna sem settur er inn í breytingartillögur sem hluti af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára haggist ekki. En breytist eitthvað þá er þetta samgönguáætlun sem tekur alltaf mið af fjárlögum hvers árs. Skili það sér ekki eða verði meira þá muni fjárlög hvers árs ákveða framkvæmdir og framkvæmdaröð. Við getum því alveg verið róleg með það að ekki er verið að fara fram úr sér hvað það varðar. Auðvitað vonum við að þetta gangi allt saman eftir.

Þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til lúta að hluta til að öryggisþáttum, þ.e. þó ekki væri nema í viðhaldi vega, sem sannarlega er ekki vanþörf á, því að það hefði jafnvel þurft enn meira vegafé til að viðhalda vegakerfinu þannig að ekki komi til meiri kostnaðar síðar og eins hvað varðar flýtingu Hornafjarðarbrúar og framkvæmda þar. Verið er að taka á fækkun einbreiðra brúa sem eru hvað flestar á því svæði sem þessi framkvæmd leiðir til að verði þá innansveitarvegir í framtíðinni. Segja má að með flýtiframkvæmd á Hornafjarðarfljóti og framkvæmdum þar sé það svona hliðarverkun, bónus að fækka einbreiðum brúm á þeirri leið.

En ég hef, hæstv. forseti, alla tíð lagt mikla áherslu á að samgönguáætlun taki mið af öryggi í umferðinni og nú er það gert með þeim hætti að það er sérstakur liður, umferðaröryggi, þar sem sérstakt fjármagn er áætlað í, er eyrnamerkt í aðgerðir til að draga úr slysahættu og það tel ég vel. Hvort það er nægilegt eða ekki, (Forseti hringir.) það er þá okkar að standa vörð um það, en þetta er komið inn í áætlunina og ég tel það af hinu góða.