140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[15:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að reyna að bregðast við spurningum mínum. Það er sérstaklega þakkarvert af því að það var óvænt að ég kæmist á dagskrá með ræðu mína akkúrat á þessum tímapunkti á þingdeginum.

Ég var ekki að mæla gegn þessum breytingartillögum. Þessi verkefni eru auðvitað flest, ef ekki öll, gríðarlega mikilvæg. Það væri mjög gott ef við ættum fullt af fjármagni til að ráðast í verkefni, til dæmis að fækka einbreiðum brúm meira en hér er gert ráð fyrir. Við þekkjum það vel, þingmenn Suðurkjördæmis, að nokkrir tugir einbreiðra brúa eru á þjóðveginum til dæmis frá Kirkjubæjarklaustri og austur að Hornafirði. Og við þekkjum auðvitað umræðuna um Hornafjarðarfljótsbrúna sem hefur vart verið í nothæfu ástandi í fjöldamörg ár og það er gott ef hægt er að flýta því verkefni.

Áhyggjur mínar lúta í rauninni að því að ekki verði hægt að standa við þessar áætlanir ef breytingar verða á veiðigjaldsfrumvarpinu og þá erum við kannski búin að vekja væntingar sem ekki verður hægt að standa undir. Það er það sem ég var að velta fyrir mér.

Ég þakka hv. þingmanni jafnframt fyrir að koma aðeins inn á og svara vangaveltum mínum að hve miklu leyti umferðaröryggissjónarmiðin voru höfð að leiðarljósi við gerð þessara breytingartillagna. Það er vel að horft var prýðilega til þess.

Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um Ölfusárbrúna. Til stendur að flýta framkvæmdum við Ölfusárbrúna en seinka breytingu vegarins milli Hveragerðis og Selfoss sem að mínu viti er sá kafli þjóðvegarins þar sem slysahætta er mikil.