140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[16:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil árétta það sem ég vitnaði til þar sem vegamálastjóri sagði í umræddu blaðaviðtali þegar hann segir að það „verði margfalt dýrara að byggja vegina upp aftur en það væri að tryggja eðlilegt viðhald“. Þá sjáum við af þessu að frá sjónarhóli ríkissjóðs, hins galtóma ríkissjóðs, er auðvitað miklu skynsamlegra að reyna að leggja fjármuni í það að halda a.m.k. því vegakerfi við sem við höfum þegar byggt upp í stað þess að láta það grotna svona niður beint fyrir framan augun á okkur.

Við vitum alveg að þegar að herðir er það nú oft þannig að menn byrja á því að trassa eða fresta hjá sér viðhaldi, þetta þekkjum við. Þegar minnkar í buddunni hjá okkur reynir maður að draga saman seglin einmitt í þessum efnum og í þeirri von að við getum brugðist við þegar fram í sækir. Þetta getum við gert í smátíma, þetta höfum við út af fyrir sig getað gert í eitt eða tvö ár. Nú eru hins vegar farin að líða býsna mörg ár. Það sem er að mínu mati ískyggilegt í þessu er það að sú stefnumótun sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur fram og ber með sér með breytingartillögunni er að þetta ástand eigi að vera svona næstu tvö árin til viðbótar eða raunar næstu þrjú árin, þ.e. árin 2012, 2013 og 2014, þannig að í fyrirsjáanlegri framtíð verður engin breyting þarna á. Það er því ljóst mál að ástandið mun enn versna.

Hv. þingmaður vék að því hvað gæti valdið því að við erum að sjá þetta gerast í vegamálum okkar. Í fyrsta lagi má ekki gleyma því að stór hluti af vegakerfi okkar var byggður upp á sínum tíma þegar aðrar kröfur voru gerðar til dæmis til burðarlags og breiddar og þess háttar. Þegar EES-staðlarnir komu um miðjan tíunda áratuginn á síðustu öld fóru menn að undirbyggja vegina með öðrum hætti, þeir voru breiðari o.s.frv. Við sjáum alveg muninn á þessu, á vegum sem hafa verið lagðir á síðustu árum og vegum sem hafa verið lagðir fyrr.

Síðan til viðbótar við allt þetta kemur fram að umferðin hefur stóraukist, sérstaklega þungaumferðin. Flutningsmátinn hefur færst upp á vegina frá skipunum og við sjáum af þessu að þegar allt þetta leggst saman, meiri umferð, kannski aðrar kröfur, (Forseti hringir.) og síðast en ekki síst miklu minna viðhald á vegunum þá hlýtur auðvitað eitthvað að láta undan.