140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[16:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi réttilega að út frá sjónarhóli ríkissjóðs ætti vitanlega að vera skynsamlegra að setja meira fé núna í samgöngur en að bíða eftir því að vegirnir verði ónýtir og þurfa þá að setja enn meira fé. Það eru kannski þau skilaboð sem vegamálastjóri er að senda okkur, senda löggjafanum sem er núna að fjalla um þessar samgönguáætlanir, og reyna kannski að hvetja okkur til dáða í því.

Vandinn er kannski sá að þegar metnaðarleysið í rekstri ríkissjóðs er eins og það er, þegar ekki er meiri metnaður til að skapa tekjur fyrir ríkissjóð með öflugu atvinnulífi, hljótum við að lenda í þeirri stöðu að minna er til skiptanna. Það hljóta allir að sjá að forsenda þess að hafa fjármagn til að setja í vegasamgöngur, til að fjármagna heilbrigðiskerfið, til að standa undir öllum rekstri sem ríkið á að standa undir er að ríkissjóður fái tekjur. Þær fær hann af atvinnulífinu fyrst og fremst. Hann fær skatttekjur, beinar og óbeinar, þegar atvinnulífið gengur vel og heimilin ganga vel líka. Þarna hefur ríkisstjórnin brugðist að mínu viti. Öfluga framtíðarsýn vantar í atvinnumálum þannig að við getum farið að horfa á auknar tekjur til ríkisins og farið að segja: Við getum sett meiri fjármuni í viðhald á vegum og annað slíkt þegar við höfum meira fé milli handanna.

En þessu er öfugt farið. Atvinnulífið er meira og minna sett í uppnám. Við sjáum hvernig komið er núna fyrir sjávarútveginum. Hann er allur meira og minna í upplausn. Í þinginu eru sjávarútvegsmálin að mínu viti algjörlega út úr kú, svo það sé bara sagt, þau munu draga kjarkinn úr þeirri atvinnugrein og koma henni væntanlega hreinlega meira og minna á hnén ef það allt nær fram að ganga. Ef það gerist og því haldið áfram mun ríkissjóður verða af tekjum. Hann mun ekki fá tekjur. Við sjáum hvernig hjólað er í iðnaðinn o.s.frv. Þetta er eitt af stóru vandamálunum.