140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[18:27]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ekki eru mörg ár liðin frá því að Alþingi tók til sérstakrar skoðunar álitamál sem lutu að heimild dómara til að dæma í sameiginlega forsjá. Eitt af því sem ég tel alveg nauðsynlegt að taka með inn í þá umræðu og þá skoðun sem hér hefur verið gert í þinginu er einfaldlega hugmyndafræðin að baki sameiginlegu forsjánni sem er í raun og veru samkomulag á milli foreldranna. Það er algert grundvallaratriði þess að hægt sé að tala um sameiginlega forsjá.

Þegar við erum komin út á þær brautir að dómarar dæmi foreldrana í sameiginlega forsjá þrátt fyrir ágreining þá þarf held ég að taka hugtakið sjálf til ákveðinnar endurskoðunar. En við vitum ekki, ekkert okkar sem erum hér inni, hvort við höfum á endanum rétt fyrir okkur. Ég veit að það eru allir að reyna að gera vel og hugsa um hagsmuni barnsins en ég hef sökum þessa skilgreiningaratriðis um sameiginlega forsjá ávallt haft (Forseti hringir.) efasemdir um að hægt sé að þvinga hana fram með dómi.