140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:34]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni afar þarft og gott mál þar sem við erum að samþykkja rammalöggjöf utan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem leggja sérstaka áherslu á getu einstaklingsins og endurkomu á vinnumarkað eftir veikindi eða slys og ég held að slíkt sé virkilega af hinu góða.

Í nefndinni fór fram mjög góð vinna þar sem meðal annars var rætt að það skipti miklu máli að starfsendurhæfingarstöðvar sem starfa vítt og breitt um landið fengju áfram tækifæri til að starfa á þeim grundvelli sem þær gera og höfum við gert ákveðnar breytingar á frumvarpinu þess efnis. En hér er um afar þarft og gott mál að ræða þar sem áhersla er lögð á starfsgetu en ekki vangetu til að starfa. Ég held að við getum með mikilli gleði afgreitt þetta mál. Ég þakka samstarfsfólki mínu í velferðarnefnd kærlega fyrir góða vinnu í málinu.