140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er tilurð frumvarpsins á grunni kjarasamninga og það er sérkennilegt að kjarasamningar á frjálsum markaði skuli enda með löggjöf inni á þingi. En engu að síður er margt í þessu sem sjálfsagt verður til bóta. Flestallt er óútfært í tengslum við þennan sjóð. Það eru ekki skörp skil á milli atvinnutengdrar starfsendurhæfingar og læknisfræðilegrar endurhæfingar og ég óttast að þau skil sem þar eru á milli verði skarpari og komi niður á þeim sem eru og þurfa á læknisfræðilegri endurhæfingu að halda og geti ekki gengið inn í þetta miðstýrða kerfi sem við erum að búa til.

Það er margt ágætt í þessu en engu að síður hef ég kosið, virðulegur forseti, að sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins. Ég greiddi breytingartillögunum atkvæði mitt en ég sit hjá við lokaatkvæðagreiðslu.