140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Það var margt til í því sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði hér um þessi efni. Það er full þörf á því að ræða með opnum huga um fjármögnun vegaframkvæmda til framtíðar. Það er rík ástæða til þess að ætla að við þurfum að fara í miklu meiri uppskurð á þeim sviðum en þessi áætlun ber með sér. Það er líka ástæða til þess, hæstv. forseti, að við veltum fyrir okkur að hve miklu leyti teljum við rétt að eyrnamerkja skattstofna ríkisins með þeim hætti sem vissulega er hefð fyrir í sambandi við samgöngumálin, þ.e. með eyrnamerkingu olíugjalds og bensíngjalds. Ég held að við þurfum að velta fyrir okkur hvort við teljum rétt að merkja það með þessum hætti og ef við teljum rétt að eyrnamerkja gjaldstofna með þessum hætti þurfum við líka að velta fyrir okkur hvort það sama kynni þá að eiga við um önnur gjöld sem segja má að leggist á bifreiðar og umferð með einum eða öðrum hætti. Eins og við þekkjum hafa hagsmunasamtök bifreiðaeigenda margoft bent á það að tekjur ríkisins af bílum og umferð eru miklu meiri en það sem nemur hinum eyrnamerktu gjaldstofnum. Ég er reiðubúinn í umræður um þetta mjög opið.

Varðandi hins vegar það sem ég kom inn á áðan um veiðileyfagjaldið og hvernig á að ráðstafa því er fyndið að maður eiginlega heyrir á hverjum degi nýjar fréttir af því hvernig einstakir stjórnarþingmenn eða ráðherrar ríkisstjórnarinnar ætla sér að verja veiðigjaldinu. Nú sé ég að hæstv. menntamálaráðherra segir að tekjur af veiðigjaldinu eigi að fara til þess að efla háskólana.