140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Munurinn á ríkisstjórninni og litlu stúlkunni með fimmeyringinn er sá að litla stúlkan með fimmeyringinn var komin með fimmeyringinn í höndina en ríkisstjórnin þarf að fá frumvarp um veiðigjöld samþykkt hér á Alþingi. Í þinginu liggja svo fyrir breytingartillögur frá stjórnarliðum þess efnis að veiðigjaldið renni jafnvel til sveitarfélaganna. Þá er mjög sérstakt að tala um að grunnforsendurnar fyrir samgönguáætlun og breytingartillögum við samgönguáætlun séu þessi veiðigjöld þegar ekki liggur fyrir hver afdrif veiðigjaldafrumvarpsins verða og hvert þeir fjármunir renna. Við skulum gefa okkur að þeir stjórnarliðar sem leggja fram breytingartillögur þess efnis að þessir fjármunir geti runnið beint til byggðarlaganna geri það í þeim hug að mögulegt sé að hér í þingsal verði meiri hluti fyrir þeim tillögum. Þá er mjög sérstakt að ræða samgönguáætlun á þeim forsendum.

Mig langar að endurtaka spurninguna sem ég beindi til hv. þingmanns áðan af því að hann hefur lengri þingreynslu en sá sem hér stendur og á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd: Er ekki dálítið sérstakt að vera að ræða samgönguáætlun og breytingartillögur við hana á sama tíma og frumvarp um veiðigjald hefur ekki verið samþykkt og á meðan ekki liggur fyrir hve hátt veiðigjald verður innheimt, hvernig það verður innheimt og hvort það rennur beint í ríkissjóð eða til sveitarfélaga líkt og breytingartillögur einstakra stjórnarliða gera ráð fyrir?