140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðuna. Ég hefði áhuga á því aðeins að halda áfram með umræðu sem þingmaðurinn ætti að þekkja mjög vel og varðar einmitt fjárlög ríkisins, þá mörkuðu tekjustofna sem hann var að ræða hér um. Af því að þingmaðurinn á sæti í fjárlaganefnd hefði ég áhuga á að heyra frá honum hvort umræðan sé komin eitthvað lengra en virðist vera innan samgöngunefndar varðandi það hvernig á að bregðast við þeim breytingum sem eru að verða á notkun á orkugjöfum. Stjórnvöld hafa komið fram með kolefnisskattinn og ég spyr hvort vinnan sé komin eitthvað lengra í að tryggja að tekjurnar dragist ekki saman eins og menn hafa bent á í samgönguáætluninni. Menn hafa áhyggjur af því í ljósi þeirra áherslna sem þessi stjórnvöld hafa lagt á græna hagkerfið og það að innleiða umhverfisvænni orkugjafa. Hvaða áhrif mun það síðan hafa á þá tekjustofna sem eru þegar til staðar?

Ég sakna þess líka að í tengslum við ákveðna afstöðu ýmissa nefndarmanna í samgöngunefnd gagnvart Vaðlaheiðargöngunum var ekki rædd frekar afstaða meiri hlutans til veggjalda almennt. Það virðist sem einhverjir þeir þingmenn sem undirrituðu meirihlutaálit sem varðar samgöngumálin um Vaðlaheiðargöngin hafi verið að gagnrýna fjármögnun þar og hugsanlega veggjöldin líka en virðast núna (Forseti hringir.) telja að það sé í lagi að innheimta veggjöld.