140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég hefði kannski átt að skýra aðeins betur hvað ég átti við með þessum breytingum á tekjum. Þingmaðurinn fór í gegnum, og ég geri mér ágætlega grein fyrir því, að efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir þau frumvörp sem varða tekjuhliðina en samt hlýtur stór hluti af verkefnum fjárlaganefndar ekki bara að felast í að úthluta eða ráðstafa þeim fjármunum sem koma hugsanlega inn í ríkissjóð heldur líka að tryggja það, hafa áhyggjur af og gæta að því að þeir tekjustofnar sem fjárlaganefnd ætlar sér að ráðstafa séu raunverulegir. Það kemur fram í þessum gögnum að menn virðast hafa verulegar áhyggjur. Við teljum öll að þessi þróun sé jákvæð, að menn ætli sér að fara í betri og umhverfisvænni orkugjafa, en þetta getur haft veruleg áhrif. Þetta er það sem maður les um (Forseti hringir.) í öllum nágrannalöndum, að menn hafa verulegar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta mun hafa. Þetta er væntanlega meginstoðin í þessum framkvæmdum (Forseti hringir.) en ekki veiðigjaldið eins og sumir virðast halda.