140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mig langar aðeins að taka upp umræður um það sem hv. þingmaður kom inn á í lok ræðu sinnar og snýr að vistvænum orkugjöfum og því sem er að breytast í samgöngumálum, hvernig ökutækin eru að þróast sem og skattheimtukerfið á umferðina.

Nú eru margir að velta því fyrir sér að fá sér bifreiðar sem annaðhvort ganga fyrir vetni, rafmagni eða öðrum vistvænum eða innlendum orkugjöfum. Maður heyrir á mörgum sem eru að velta þessu fyrir sér að þeir hafa áhyggjur, í rauninni sömu áhyggjurnar og atvinnulífið og aðrir hafa af stefnu núverandi ríkisstjórnar, að þau fríðindi sem eru í skattheimtunni á þessum vistvænu ökutækjum séu ótrygg, þ.e. fólk treystir ekki ríkisstjórninni til að viðhalda þessum fríðindum. Þeir sem fá sér metanbifreið borga um helmingi lægra eldsneytisverð. Þeir sem aka mikið, eins og til að mynda leigubílstjórar, hafa sagt við okkur þingmenn að þeir ætli sér ekki út í þetta fyrr en hingað komi ríkisstjórn sem geti skapað einhverja umgjörð til framtíðar. Það treystir því enginn að núverandi ríkisstjórn fari ekki að hringla í þessu kerfi og hækka skattana um of.

Mig langaði að fá hv. þingmann til að fara yfir það, af því að ég veit hann hefur góða þekkingu á þessum málaflokki, hvernig umgjörð okkur er mikilvægt að búa í kringum þessar breytingar og þessa vistvænu bíla þannig að það sé hvetjandi fyrir almenning, fyrirtæki og fleiri að nýta sér í auknum mæli rafmagnsbíla, vetnisbíla og annað þess háttar.