140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög athyglisverð spurning og snýr að því hvort menn geti treyst ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar sem eru ótímabundnar og ekki sagt fyrir um sólarlag. Ég held að það sé alveg einboðið að einhvern tímann verði bílar að borga veggjöld. Það er einboðið. Ef við hugsum okkur að allir bílar verði orðnir rafbílar, eftir 10–20 ár, hver á þá að standa undir kostnaði við byggingu vega og viðhald? Ég held að allir hljóti að skilja að menn verða að taka upp veggjöld sem tæknin býður upp á í dag. Mér finnst hins vegar að það þurfi að tilkynna hversu lengi þessar undanþágur gildi þannig að menn hafi á einhverju að byggja. Mér þætti ekki skrýtið að menn gæfu út yfirlýsingu eða jafnvel settu í lög að þessar undanþágur skyldu til dæmis gilda næstu sjö árin eða fimm, eitthvað skynsamlegt sem menn taka upp. En fyrr en seinna verður Vegagerðin að fá tekjur miðað við notkun. Eins og ég gat um áðan er tæknin til staðar. Það er eitthvert lítið tæki í bílnum sem sendir út kílómetranotkunina einu sinni á dag, eitthvað svoleiðis. Það getur meira að segja verið mismunandi eftir vegum eins og ég gat um, bílastæðisgjöld, jarðgangagjöld o.s.frv. Næsta skref í því sambandi er að það verður miklu auðveldara að hafa vegaframkvæmdir og vegarspotta í einkaeign vegna þess að þá geta menn sagt: Gjaldið af þessum vegi fer til þessa aðila en ekki endilega til Vegagerðarinnar. Þetta býður upp á mjög marga skemmtilega möguleika fyrir þá sem vilja sjá eitthvað annað en ríkið alls staðar.