140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns þegar hann talaði um slit á undirlagi vega. Það er ljóst að hringinn í kringum landið hefur verið vanrækt að halda undirlaginu við. Við vitum að undirlag slitnar meira nú en áður vegna þungaflutninga á vegum. Þannig var sagt frá því fyrir sex eða sjö árum í skýrslu Hagfræðistofnunar að slit sem einn flutningabíll leiðir til á undirlagi sé á við 30 þús. smábíla. Það hafa orðið gríðarlegar miklar breytingar á flutningum og margir af þessum vegum voru byggðir með undirlag sem ekki þolir þetta.

Ef maður hugsar aðeins til málanna í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum á sínum tíma þegar verið var að skera mikið niður í ríkisútgjöldum var viðhaldið vanrækt þar sem leiddi til þess að einn góðan veðurdag var komið upp stórkostlegt vandamál þegar kostnaður við að halda við vegakerfinu var orðinn slíkur að ekki varð við neitt ráðið. Telur þingmaðurinn að það sé hætta á að viðlíka hættuástand skapist hér á Íslandi og að við getum séð, ef fram heldur sem horfir, eitt allsherjarhrun á vegakerfinu í nánustu framtíð ef ekkert verður að gert?