140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki ekki til niðurskurðar í Bretlandi og Bandaríkjunum en það er alveg ljóst af umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlunina og þeim umsögnum sem borist hafa að full ástæða er til að hafa áhyggjur af því hversu litlir fjármunir eru veittir til viðhalds samgöngumannvirkja í ljósi þeirra ummæla að innan við 40% af þeim fjármunum sem þarf til lágmarksviðhalds hafi verið varið til þess á undanförnum fjórum, fimm árum.

Í ljósi þess að vegakerfið er að eldast eins og Vegagerðin hefur bent á er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að það gæti orðið, ekki kannski allsherjarhrun en gríðarlega hár kostnaður gæti fallið á ríkissjóð á einhverjum tímapunkti vegna þess að staðreyndin með samgöngumannvirki er sú að það verður dýrara eftir því sem það drabbast meira niður. Kostnaðurinn getur vaxið svo gríðarlega ef ekki er tekið á hlutunum jafnt og þétt um leið og viðhalds verður þörf.

Í ljósi alls niðurskurðarins, kreppunnar og allra vandamálanna sem við Íslendingar erum að ganga í gegnum held ég að þetta sé eitt af því sem má alls ekki vanrækja, þ.e. viðhald vega. Það mun allt koma í bakið á okkur síðar með tilheyrandi aukakostnaði. Miðað við tillögur meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og tillögur innanríkisráðherra í samgönguáætlun er því miður að mati þess sem hér stendur og þeirra sem veitt hafa umsögn um málið ekki komið til móts við þessi sjónarmið og þessari hættu hefur ekki verið afstýrt.