140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom inn á það í lok ræðu minnar þar sem tíminn var útrunninn að ég hefði því miður ekki haft tíma til að fara yfir allar þær breytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum og heldur ekki yfir einstök samgöngumannvirki. Það hyggst ég gera í seinni ræðu, m.a. hvað varðar Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði. Það er klárlega eðlilegt að fagna því að þær framkvæmdir flytjist framar. Ég mun koma inn á það í minni seinni ræðu.

Þegar rætt er um viðhald vega er alveg ljóst að ekki er varið nægilegum fjármunum til viðhalds samgöngumannvirkja þrátt fyrir breytingar meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Það er mögulegt því að þetta er spurning um forgangsröðun. Það er mögulegt að sækja fjármuni í þessa málaflokka ef fjármununum er ekki varið annars staðar.

Ég bendi til að mynda á að fjárframlög til Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa vaxið á hverju einasta ári frá því að núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) tók við. Fjárframlög til Umhverfisstofnunar hafa vaxið á hverju einasta ári frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. (Forseti hringir.) Svona mætti áfram telja. Eins og hv. þingmaður komst að orði hér fyrr í dag (Forseti hringir.) er þetta spurning um forgangsröðun. Það er það sem þarf að gerast og það er það sem því miður (Forseti hringir.) hefur ekki gerst hjá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.