140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:10]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég er þeirrar skoðunar að hækka beri veiðigjaldið er sú að gengi krónunnar er 20% lægra en það hefur verið að meðaltali síðastliðin 30 ár. Afkoma sjávarútvegsins er mun betri en sem nemur fjárfestingarþörf hans. Þetta er bara spurning um að finna þá upphæð á veiðigjaldinu sem tryggir nógu mikinn afgang fyrir greinina til að hún geti farið í eðlilegar fjárfestingar. Ef það er ekki gert er hætta á ruðningsáhrifum, eins og hv. þingmaður var að lýsa, þannig að ríkið dragi í raun og veru úr fjárfestingum í einni atvinnugrein til að fjármagna fjárfestingu í annarri eða í samgöngum. Það er ekki það sem við þurfum á að halda. Það sem við þurfum á að halda er aukin fjárfesting í öllu hagkerfinu, ekki bara með því að minnka í einni og auka í annarri.

Ég tel að góð leið til þess að fjármagna aukna fjárfestingu í innviðum samfélagsins sé að endurfjármagna skuldir ríkissjóðs. Ég giska á að út frá þeim tölum sem við höfum um vaxtakostnað ríkissjóðs og skuldir hans að ríkið greiði um 5% vexti. Það eru mjög háir vextir, ekki síst í ljósi þess að í hagkerfinu eru á næstu árum um 1.200 milljarðar sem geta ekki farið allir út í einu. Við höfum þar af leiðandi tækifæri til að nýta hluta af þeim í endurfjármögnun á skuldum ríkissjóðs á mun lægri vöxtum en við búum við í dag.