140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það dregur enginn í efa að hv. þingmaður hefur mikla þekkingu á samgöngumálum og þekkir vel mikilvægi þess að tryggja samgöngur allt í kringum landið og ekki hvað síst fyrir hinar dreifðu byggðir.

Í breytingartillögum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram að forsendurnar fyrir þessum breytingartillögum séu þær að veiðigjaldafrumvarpið verði samþykkt. Nú liggur þetta frumvarp fyrir og er í meðförum þingsins og ekki er ljóst hver afdrif þess verða, hver upphæðin verður, hvernig gjaldið verður innheimt eða hvert það rennur. Á það að renna í ríkissjóð? Á það að renna beint til sveitarfélaganna? Fyrir liggur breytingartillaga frá einum hv. stjórnarþingmanni um að gjaldið renni til sveitarfélaganna en ekki í ríkissjóð. Hvað finnst hv. þingmanni í ljósi þess að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur málið upp með þessum hætti? Finnst hv. þingmanni eðlilegt að við séum að ræða hér um samgönguáætlun á sama tíma og þessi mál standa óleyst?

Seinni spurningin mín snýr að þeirri staðreynd að ríkissjóður innheimtir 54 milljarða í tekjur af ökutækjum. Einungis um 30% af þeirri upphæð rennur aftur til samgöngumála. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvað hann telji eðlilegt að renni mikið til vegamála og vegagerðar af því sem innheimt er af ökutækjum. Er 30% ekki allt of lágt hlutfall sem rennur aftur til vegagerðar? Er ekki eðlilegt að sú prósenta verði hærri en (Forseti hringir.) raun ber vitni miðað við tillögur meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og ríkisstjórnarinnar?