140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar.

Á árunum 2012 er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af ökutækjum verði 54 milljarðar. Þar af er ráðgert að tekjur ríkissjóðs af eldsneyti, sem eru skattar sem ríkissjóður leggur á eldsneyti sem hefur hækkað gríðarlega eins og við öll þekkjum, verði 21 milljarður. Skatttekjur vegna vörugjalds á eldsneyti hafa hækkað um 163% frá árinu 2008. Þetta kemur fram hjá umsagnaraðilum sem hafa veitt umsögn um samgönguáætlun.

Í ljósi þess hversu lítið rennur til samgöngumála og vegagerðar, eins og hv. þingmaður kom inn á, af gríðarlegri skattheimtu ríkissjóðs af ökutækjum í landinu, sem kemur ekki hvað síst illa niður á þeim sem búsetu sinnar vegna eða aðstæðna vegna þurfa að nota einkabíl til að sækja vinnu daglega og jafnvel um langan veg, finnst hv. þingmanni þá ekki dálítið ódýrt þegar þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma hingað og segja að ekki sé mögulegt að halda hér uppi eðlilegu viðhaldi á samgöngumannvirkjum landsins, ekki sé mögulegt að tryggja það að ekki verði stórtjón á viðhaldi þegar ríkisfjármálunum er þannig háttað að einungis 30% skattsins renna til vegagerðar? Er ekki dálítið ódýrt að tala um að ekki sé mögulegt að halda við samgöngumannvirkjum án þess að taka af veiðiskattinum þegar þessar staðreyndir tala sínu máli?