140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera að misskilja eitthvað. Það sem verið er að framkvæma á þessu vegáætlunartímabili er, eins og ég er búinn að segja held ég þrisvar sinnum í ræðu minni, kaflinn frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði. Það er hin gamla Múlasveit. Síðan er allt annar kafli sem við erum að ræða um að ekki sé búið að finna endanlega niðurstöðu um varðandi leiðarvalið. Við þurfum ekkert að deila við dómarann í því sambandi. Dómurinn féll. Hann er niðurstaða. Við vitum að þessum málum hefur verið komið í ákveðinn farveg sem er sá að nú er Vegagerðin að reyna að átta sig á hvaða aðrir kostir séu í stöðunni og reyna að leggja kostnaðarlegt mat á það og þess háttar og undirbúa það síðan í góðu samstarfi við heimamenn. Það sem heimamenn hafa lagt áherslu á og ályktað um, jafnt á fjórðungsþingum sem í ályktunum sveitarfélaga, er að það sé mjög brýnt að þessi niðurstaða liggi fyrir strax þegar búið er að ljúka framkvæmdunum í Múlasveitinni, búið að ljúka þeim framkvæmdum sem núna eru u.þ.b. að hefjast. Þá getum við hafist handa á fullri ferð við vegagerðina á þessu umdeilda svæði í Gufudalssveitinni, en ekki að ýta þeirri framkvæmd inn á síðasta tímabilið eins og því miður er lagt til í þessari þingsályktunartillögu og ekki er gerð breytingartillaga um frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Það er þetta sem ég er að gagnrýna. Í ljósi þess að nú skyndilega telja menn sig hafa fullar hendur fjár sem hægt sé að verja til margra góðra verkefna, og ég er ekki að gera lítið úr neinu þeirra, hefði ég talið að það hefði verið hægt að leggja aukið fjármagn í þennan veg sem þessar deilur hafa staðið um, fyrr á þessu framkvæmdatímabili, á öðru tímabilinu. Þannig kæmust menn sem lengst á öðru tímabilinu við framkvæmd vegarins en væru ekki að ýta stærsta og mesta þunganum í framkvæmdunum á þessu svæði inn á síðasta tímabilið sem er algjörlega fugl í skógi, en við höfum litla vissu fyrir hvort gangi eftir.