140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og kunnugt er slitnaði upp úr viðræðum formanna stjórnmálaflokkanna í gær og forsætisráðherra hefur tilkynnt mönnum að hér stefni í sumarþing 2. júlí. Í 3. mgr. 10. gr. þingskapalaga segir:

„Sumarhlé þingsins er frá 1. júlí til 10. ágúst og skal ekki boða til nefndafunda á þeim tíma nema brýn nauðsyn krefji.“

Þeir sem skrifuðu þessi lög, við ágætir þingmenn, höfðu ekki einu sinni hugmyndaflug til að skrifa inn í þau að þingfundir skyldu ekki boðaðir en það er önnur saga. En af hverju stefnir í sumarþing í boði ríkisstjórnarinnar? Er það vegna óbilgjarnrar stjórnarandstöðu eins og stjórnarflokkarnir hafa haldið fram? (Gripið fram í: Já.) Ég get ekki tekið undir það. Skoðum staðreyndir málsins. Okkur er legið á hálsi að við stöðvum hér öll mál, ekkert komist í gegn, að við séum í málþófi bara til að vera í málþófi. Frá 1. maí hafa 54 lög og þingsályktanir frá stjórnarflokkunum verið samþykkt á þinginu. Frá 1. júní hafa 30 lög og þingsályktanir verið samþykkt á þinginu. Ég get ekki séð að þarna sé á ferð óbilgjörn stjórnarandstaða vegna þess að við höfum tekið það margoft fram og ítrekað að mál sem eru vel unnin og samkomulag er um að hafi fengið eðlilega þinglega meðferð fara áfram eftir sem áður.

Sjávarútvegsmálin eru hins vegar í ógöngum. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir samræður og samtöl hafa stjórnarflokkarnir ekki viljað horfast í augu við að sjávarútvegsfrumvörpin eru stórskaðleg íslenskum sjávarútvegi og þar með þjóðinni allri. Það skiptir ekki máli þótt stjórnarherrunum sé bent á að þessi frumvörp munu reka fjölmörg fyrirtæki í gjaldþrot. Á endanum snýst þetta um að búið er að ráðstafa þeim peningum sem gert er ráð fyrir í frumvörpunum inn í ríkissjóð, það er búið að ráðstafa þeim. (Forseti hringir.) Síðast í gær talar hæstv. menntamálaráðherra um að háskólarnir (Forseti hringir.) fái sinn skerf af væntanlegum veiðigjöldum. Þetta snýst um það en ekki hvernig hagsmunum íslensks sjávarútvegs er best fyrir komið.