140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil blanda mér aðeins í umræðuna um fyrirhuguð þinglok. Ég vil rifja upp að þegar forveri Samfylkingarinnar, Alþýðuflokkurinn, var í ríkisstjórn 1991–1995 var margt í uppnámi í samfélaginu og það endaði með því að hér vantaði 12 þús. störf. Þessi stjórn kenndi sig við Viðey, eins og það fæli í sér atvinnuuppbyggingu. Þegar Samfylkingin kom næst til starfa kenndi sú stjórn sig við Þingvelli. Það endaði með hruni.

Núna er Samfylkingin í stjórn og kennir sig við norræna velferð, norræna uppbyggingu, norræna stjórnsýslu. Þar er lykilatriðið að menn séu tilbúnir að setjast niður, taka sáttina, finna málamiðlanir eins og allir landsmenn hafa séð í fínum dönskum þáttum á RÚV í vetur þar sem menn leggja sig fram við að finna samkomulag þar sem stór hluti þjóðarinnar og stór hluti þingsins á hverjum tíma stendur bak við þær breytingar sem verða. Breytingarnar verða vissulega minni, frú forseti. Þær verða rólegri. Það geta allir í samfélaginu aðlagað sig. Það eru engar kollsteypur. Annars staðar á Norðurlöndunum er ekki stöðugt verið að egna einum þjóðfélagshóp gegn öðrum, einni atvinnugrein gegn annarri, einni byggð gegn annarri eins og hæstv. ríkisstjórn með hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar hefur gert allt þetta kjörtímabil. Nú ætlar hún að ganga enn lengra í sumar með því að taka þjóðþingið til sín, framkvæmdarvaldið ætlar að taka þjóðþingið til sín. Eru náttúruhamfarir í gangi? Nei, það er það ekki. Vofir einhver efnahagsvá yfir Íslandi? Ekki segir ríkisstjórnin það. Hún segir að hér sé allt í besta gangi og gjaldeyrishöftin verji okkur fyrir því miður væntanlega fyrirsjáanlegu hruni sem verður í Evrópu. En þingið á Íslandi skal vera í gíslingu framkvæmdarvaldsins til að afgreiða mál sem það gat ekki komið fram með á eðlilegum starfstíma, sem það hefur þó meiri hluta fyrir og greiddi atkvæði með í upphafi. Þannig er staðan. Hvað á að fjalla um? (Forseti hringir.) Það á að halda áfram að grafa skurði og dýpka gjána á milli byggðanna í landinu og milli atvinnugreina.