140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Virðum þær lýðræðislegu leikreglur sem við höfum sett okkur á Alþingi. Þetta eru stór orð en mig langar til að benda á að hv. þm Þráinn Bertelsson kemur fram og gagnrýnir harðlega vinnubrögð eigin ríkisstjórnar þegar hann segir í dagblaði í dag:

„Augljóst er að stjórn sem hefur það vinnulag að láta óafgreidd mál safnast saman og hyggst afgreiða þau í lok þings er að gefa stjórnarandstöðu gullið tækifæri til að gera fyrirsát og taka mál í gíslingu með málþófi.“

Ég er reyndar ósammála honum varðandi það að taka mál í gíslingu með málþófi, en vil benda á að síðast þegar ég vakti máls á því í ræðustól Alþingis voru 191 mál óafgreidd hjá ríkisstjórninni eða föst í þingnefndum, 191 mál, þingsályktunartillögur eða lagabreytingafrumvörp. Það er, virðulegi forseti, algerlega óásættanlegt að framkvæmdarvaldið með hæstv. forsætisráðherra í fararbroddi skuli geta fótumtroðið Alþingi og stjórnað þingstörfum. Það er ekki í lagi, frú forseti.

Við heykjumst hins vegar ekki á því að ræða brýn mál á sumarþingi. En hvernig væri þá að ræða til dæmis afnám verðtryggingarinnar, (Gripið fram í.) atvinnuuppbyggingu eða byggðamálin? Við þingmenn Framsóknar höfum lagt fram fjölmörg byggðamál sem við teljum mjög brýnt og nauðsynlegt að tala um. Eða ræða um evruna og vandamál hennar. Það er fullt af stórum málum sem við getum rætt, virðulegi forseti, og fullt af brýnum málum sem liggja sofandi í þingnefndum Alþingis (Forseti hringir.) vegna þess að ríkisstjórnin kemur þeim ekki í gegn og viðhefur ekki það vinnulag sem nauðsynlegt er á Alþingi.