140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur farið svolítið fyrir því að menn ræði um þinglokin enda hafa menn kannski velt þeim mikið fyrir sér á undanförnum dögum frá því að starfsáætlun okkar rann út. Mér finnst svolítið einkennilegt að menn fullyrði að ekkert sé sjálfsagðara en að þing verði í júlí, vegna þess ákvæðis sem er í 10. gr. þingskapa. Þar segir að sumarhlé þingsins sé frá 1. júlí til 10. ágúst. Ég skil ekki af hverju mönnum finnst sjálfsagt að horfa fram hjá því. Það hefur auðvitað verið gert þegar brýna nauðsyn ber til en hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Hér er einfaldlega um það að ræða að ríkisstjórnin kemur fram með mál allt of seint. Hún hefur verið vöruð við þeim vinnubrögðum og við höfum ályktað um að við ætlum að taka upp betri vinnubrögð í þinginu. Engu að síður læra menn ekki, koma með málin allt of seint og stappa svo niður fótunum og ætlast til að þetta fari allt saman í gegnum þingið, nánast án þess að mál fái lágmarksskoðun. Við hljótum að staldra við þetta og íhuga á hvaða leið við erum. Er það svona sem okkur finnst eðlilegt að vinna? Mér finnst það ekki.

Ég hef velt því fyrir mér í vetur hvort eðlilegt væri og rétt að setja það inn í þingsköpin að færa fram þá dagsetningu sem ríkisstjórn og þingmenn hafa til að leggja fram þingmál svo að þau komist örugglega á dagskrá fyrir þinglok. Miðað við reynsluna og miðað við að mönnum finnst þetta allt sjálfsögð og góð vinnubrögð, eftir því sem mér skilst á ýmsum þingmönnum stjórnarliðsins, held ég að það sé eina leiðin til að menn læri að það þýðir ekki að koma fram með mál allt of seint, risastór mál og leyfa þeim ekki að fá nægilega umfjöllun og nægilega umræðu í þinginu. Það eru ekki góð vinnubrögð, (Forseti hringir.) það er ekki til fyrirmyndar og við eigum að hætta því.