140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Illu heilli höfum við búið við þessa ríkisstjórn hátt á fjórða ár. Það er ekki hægt að segja að innan ríkisstjórnarinnar sé ekki þingreynt fólk. Samt koma málin hingað inn mjög seint og algerlega ófullburða. Það er eðlilegt að stjórnarandstaða hvers tíma, hvort sem það erum við í dag eða aðrir á morgun, ræði málin og fái tækifæri til þess. Það verður afar fróðlegt að upplifa hvaða níumenningar það verða innan þingsins sem munu setja nöfn sín við það að breyta þingsögunni, að stoppa eðlilega og lýðræðislega reglu sem meðal annars stjórnarandstaðan hefur til að ræða málin. Ríkisstjórnin verður að horfast í augu við að málin sem við ræðum hér komu inn afar seint, m.a. vegna óeiningar innan ríkisstjórnarflokkanna. Þau komu ekki fyrr en í lok mars. Er óeðlilegt að stjórnarandstaðan þráist við og vilji fá að ræða málin til að fara yfir heildarhagsmuni, biðji um það einlægt, leggi fram þá einföldu ósk að málin fari aftur til atvinnuveganefndar til að hægt sé að vísa málunum til umsagnar? Nei, það má ekki gera, það má ekki ræða.

Það eru þjóðarhagsmunir, hagsmunir allra, að menn berjist gegn frumvörpum sem gera meðal annars út af við lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki og önnur fyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum. Við sjálfstæðismenn munum berjast fyrir hagsmunum allra af því að það er allra hagur að hér verði sæmilegt og gott umhverfi fyrir sjávarútveginn, umhverfi sem skapar störf og arðsemi fyrir alla þjóðina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)