140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Svo þjösnalega er hægt að umgangast málfrelsið og lýðræðisreglurnar að það snúist upp í andhverfu sína. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst í þinginu að undanförnu. Menn vísa til hins lýðræðislega réttar sem stjórnarandstaðan hafi til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri en það er að snúast algerlega upp í andhverfu sína, upp í það að minni hlutinn í þinginu haldi meiri hlutanum í gíslingu og það sé ekki hægt að koma málum fram.

Mér finnst ekki þýða neitt að vísa í málþóf fyrri tíðar þessu til réttlætingar vegna þess að síðan höfum við sett ný þingskapalög. Í þeim eru meðal annars ákvæði sem eiga að tryggja að málflutningur geti átt sér stað með eðlilegum hætti og mál fengið lýðræðislega niðurstöðu, eðlilega niðurstöðu að loknum efnislegum umræðum.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði: Eru hér náttúruhamfarir í gangi? Er ástæða til að sitja hér í sumar? Það eru kannski ekki náttúruhamfarir en það eru málflutningshamfarir í gangi og vaðið yfir lýðræðislegar leikreglur. Þegar menn tala eins og hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir í upphafi sem miklaðist yfir því að einhver mál hefðu fengið að fara í gegn — hún talaði eins og sú sem dagskrárvaldið hefur. En hún er ekki fulltrúi meirihlutasjónarmiða í þessum þingsal. Ég bið hv. þingmenn aðeins að staldra við og hugleiða á hvaða leið við erum.

Auðvitað er alveg ljóst að þetta sumarþing sem haldið verður er ekki í boði ríkisstjórnarinnar. Það er svikalaust í boði stjórnarandstöðunnar. Hér hefur stjórnarandstaðan farið í málþóf í hverju málinu á fætur öðru, ekki bara um fiskveiðifrumvörpin fyrri og síðari. (Gripið fram í: Icesave.) Ekki bara stjórnarskrármálið. Stjórnarráðið, annað eins mál og það var, var tilefni málþófs sem stóð, ég veit ekki hversu mörgum dögum saman. Ég bið menn að hugleiða aðeins á hvaða leið við erum. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu sitjum við í sumar til að afgreiða þau mál sem stjórnarmeirihlutinn hefur sett á dagskrá.