140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þessari umræðu skuli hafa verið fundinn staður í dagskrá þingsins. Tilefni þess að ég óskaði eftir sérstakri umræðu um málefni tengd Sparisjóðnum í Keflavík, eða SpKef öllu heldur, er nýlegar fréttir af niðurstöðu í ágreiningsmáli sem íslenska ríkið átti við Landsbankann eftir að ákveðið hafði verið að SpKef yrði rennt saman við Landsbankann. Sá ágreiningur sem reis við Landsbankann snerist um það hversu mikið ríkið þyrfti að leggja til með SpKef þannig að rétt væri gert upp í viðskiptum aðilanna.

Niðurstaðan er sú, eftir að tekið hefur verið tillit til fjármögnunarkostnaðar ríkisins, að ríkið mun á endanum þurfa að leggja til 25 milljarða með SpKef. Það er reikningur sem lendir á okkur öllum, öllum skattgreiðendum þessa lands, í fjárlögum.

Mig langar til að rifja aðeins upp að um haustið 2008 var það að sjálfsögðu eitt meginverkefni stjórnvalda að ganga úr skugga um að innstæður í íslenska fjármálakerfinu væru tryggðar. Enginn hefur dregið dul á það í þessari umræðu að það var mikilvægt að jafnt yrði gengið fram gagnvart öllum fjármálastofnunum í því tilliti.

En stjórnvöld höfðu líka annað meginmarkmið á þessum tíma, ekki bara það að tryggja innstæður allra innstæðueigenda í landinu. Annað markmið var líka jafnmikilvægt og var til grundvallar setningu neyðarlaganna og það var þetta: Göngum þannig frá hlutunum að einkaskuldir verði ekki gerðar að opinberum skuldum. Það er í því samhengi sem við þurfum að ræða hvernig það gerðist að frá því að ríkið hóf afskipti af SpKef, og því var fylgt eftir með því að það yrði án kostnaðar fyrir ríkið og þar með íslenska skattgreiðendur, þróuðust mál þannig á um það bil tveimur árum að reikningur vegna þess sem ég vil nefna einkaskuldir lendir hjá skattgreiðendum á endanum. Það er hið alvarlega í þessu máli og er ástæða þess að hér eru kallaðar fram ýmsar spurningar, m.a. þessi: Á hverju byggðist það mat í upphafi að íslenska ríkið mundi ekki verða fyrir neinum kostnaði?

Við köllum eftir svörum um það. Er það vegna þess að eignavirði þess sem var lagt inn með innstæðunum í SpKef var svona stórlega ofmetið? Er það málið? Það er alvarlegt ef svo er vegna þess að þá hefði aldrei átt að setja SpKef áfram í rekstur, þá voru menn í raun með gjaldþrota rekstur frá upphafsdögum. Það tók menn um það bil eitt ár að átta sig á því að það var að minnsta kosti ekki ástæða til að framlengja lengur rekstrarleyfi gamla sparisjóðsins sem hafði starfað á undanþágu.

Frá því að ríkið steig inn og stofnaði SpKef — og á þeim tímamótum sagði þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra að þetta yrði án kostnaðar — leið tæpt ár þar til nýr efnahags- og viðskiptaráðherra tjáði okkur að það væri best að hætta, komið væri gat upp á 11,2 milljarða. Við hljótum að spyrja okkur: Var það vegna innlánasöfnunar á þessu tímabili þar sem viðkomandi fjármálafyrirtæki safnaði innlánum á ábyrgð og kostnað íslenskra skattgreiðenda eða var það vegna eignabruna sem átti sér stað eftir að ríkið hóf afskipti af sparisjóðnum? Þegar þessar spurningar eru bornar fram er því að jafnaði svarað að þetta eigi sér allt rætur í rekstrarsögu SpKef eða Sparisjóðsins í Keflavík fram til þess tíma að ríkið hóf afskipti. En þau svör duga ekki vegna þess að uppgjör Sparisjóðsins í Keflavík lá fyrir áður en ríkið hóf afskiptin. Síðan hefur margoft komið fram, þegar spurt hefur verið um reksturinn, að innlánasöfnun SpKef var undir nánu eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Í yfirlýsingu sem fjármálaráðuneytið gaf á sínum tíma þegar ákveðið var að leggja SpKef inn í Landsbankann kom fram að menn höfðu í heilt ár metið stöðuna, metið rekstrarhæfi SpKef, metið ástæðu þess að styðja áfram (Forseti hringir.) við SpKef o.s.frv. Og til upprifjunar þá eru tölurnar sem við erum að tala um hér hærri en eigið fé (Forseti hringir.) allra íslensku bankanna var á árunum 2003–2004. Búnaðarbankinn, Kaupþing, Landsbankinn — allir þessir bankar. (Forseti hringir.) Enginn þeirra hafði eigið fé sem nam 20 milljörðum. Upphæðirnar í þessu máli eru umfram eigið fé (Forseti hringir.) hvers einasta banka á Íslandi sem starfaði á þeim tíma.