140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Niðurstaða langrar og oft glæstrar sögu Sparisjóðs Keflavíkur er sorgleg. Hún sýnir hvað gerist þegar menn missa sjónar af hugsjónum sínum, sjónar af hlutverki sínu fyrir samfélagið og tapa sér í höfuðsyndunum, græðginni, ágirndinni, hrokanum og munúðarlífinu, jafnvel hvattir áfram með aðgerðum og aðgerðaleysi eftirlitsaðila og stjórnvalda. Réttir menn í réttum litum með rétta vini fengu að ganga um sparisjóðinn eins og sinn eigin sparibauk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Það er rétt.) Eftir standa byggðarlög, ekki bara eitt heldur mörg, í sárum. Eftir standa einstaklingar rúnir öllu sínu.

En þetta átti sér langan aðdraganda. Ég minni á hlutafélagavæðinguna og ég vil minna á að nú er ætlunin að halda áfram á sömu braut og leyfa sparisjóðunum að verða hlutafélög. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar árið 2008 við útlánastefnu sparisjóðsins af Fjármálaeftirlitinu, að sparisjóðsstjórinn væri nær einráður og lítið væri hugað að tryggingum og haldbærum veðum. Eftir stendur byggðarlag í sárum.

Ég minni á að Alþingi hefur samþykkt rannsókn á sögu sparisjóðanna og hún er í gangi. Við bíðum eftir að fá niðurstöður þeirrar rannsóknar. Alþingi ályktaði, og það kemur fram í greinargerðinni sem var samþykkt hér, að rannsóknin ætti ekki að einskorðast við aðdraganda hrunsins í október 2008 heldur taka einnig til tímans eftir hrun, enda eru áhrif hrunsins enn að koma í ljós (Forseti hringir.) hjá sparisjóðum um allt land. Við þurfum að fá þessa skýrslu og við þurfum að hlusta á niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, til þess var hún skipuð.