140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum SpKef og þá sorgarsögu eins og sumir hafa kallað og tek ég undir að nú er að koma í ljós að víða virðist hafa verið pottur brotinn í rekstri þess sparisjóðs og eðlilegt að þeir sem þar stjórnuðu séu gagnrýndir mjög harkalega. Miðað við fréttir og annað sem við höfum séð virðist hafa verið töluvert mikið um að menn færu fram úr heimildum sem þeir höfðu og ber að sjálfsögðu að taka á því. En hvað sem menn segja um fyrri ríkisstjórnir breytir það ekki því að einhverjir tóku ákvarðanir um hvernig ætti að endurreisa sparisjóðinn eða halda honum gangandi. Og það er að sjálfsögðu núverandi ríkisstjórn og þeir ráðherrar sem í henni sátu sem bera ábyrgð á því ferli, ferlinu frá 2009 væntanlega. Það er það sem mig langar að velta hér upp og við hljótum að spyrja okkur um.

Í ársbyrjun 2009 var eigið fé sjóðsins um 5,4 milljarðar og eiginfjárhlutfallið 7%, einu prósentustigi undir því sem var lögbundið á þeim tíma. Árið 2010 er nýi sjóðurinn stofnaður og fer í þrot um ári síðar. Hvað gerist á þessum tíma? Hvernig halda stjórnvöld á málefnum sjóðsins? Hvernig stendur á því að 20–30 milljarðar, talan er greinilega eitthvað á reiki, lenda núna á ríkissjóði? Hve miklar voru innstæðurnar í Sparisjóði Keflavíkur á þessum tíma? Hvað hefði kostað að greiða þær innstæður miðað við það sem þetta hefur kostað þegar á hólminn er komið? Hvað klúðraðist hjá ríkisstjórninni? Ég er búinn að spyrja að því hvar ríkisstjórninni hafi mistekist við að taka á málum þessa sjóðs. Það hefur ekki komið fram. Væntanlega telur ríkisstjórnin að henni hafi ekki orðið á nein mistök. Við sjáum vonandi út úr því síðar.

Var ekki hægt að komast hjá þessu tugmilljarðatapi? Við hljótum að spyrja ríkisstjórnina að því líka. Hvernig var eftirlit með sjóðnum fyrir og eftir hrunið? Fyrir og eftir breytinguna, þegar SpKef varð til? Það er full ástæða til að skoða þetta allt saman, frú forseti, mjög gaumgæfilega og við hljótum að krefjast þess (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi þetta mál. Ég held að margt eigi eftir að koma í ljós þegar fram líða stundir.