140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra rakti mjög vel feril þessa máls og ég hef litlu við það að bæta. Ég held einnig að rétt sé að menn hafi í huga, ég mun að minnsta kosti gera það, að samkvæmt fréttum fjölmiðla eru sum af þessum málum nú á leið til eða komin til sérstaks saksóknara þannig að þá fá þeir þættir málsins úrlausn þar. Það er hyggilegt að við sem höfum átt einhverja aðild að málinu tölum um það með það í huga.

Auðvitað spyr maður sig spurninga, ekki bara um ábyrgð stjórnenda í þessum efnum, heldur líka endurskoðenda. Hér hafa hv. þingmenn nefnt til sögunnar eins og óhrekjanlegar staðreyndir að eigið fé Sparisjóðs Keflavíkur hafi á tilteknum tímapunkti 2009 verið 5 milljarðar. Voru þeir til? Stöndum við ekki frammi fyrir því að sennilega hafa tölur af þessu tagi verið eins ómarktækar og nokkuð getur verið? (Gripið fram í: Láttu rannsaka það.) Það er að sjálfsögðu rétt að fara yfir það. Hver úttektin var gerð á fætur annarri af „virtum“ endurskoðunarfyrirtækjum og við skulum gera ráð fyrir því að sparisjóðurinn sjálfur hafi haft sína eigin endurskoðendur og þar fram eftir götunum.

Ég held að menn ættu að tala varlega um að það hafi orðið sú breyting á raunverulegu eigin fé Sparisjóðs Keflavíkur sem sumir hér virðast vera láta. Var það til staðar? Ætli annað eigi ekki eftir að koma í ljós?

Svo vil ég að lokum segja, vegna þess að menn hafa rætt yfirlýsinguna um að tryggja allar innstæður og talað óvarlega um hana að mínu mati: Ég held að við ættum ekki að horfa fram hjá því að þrátt fyrir allt hefur sú yfirlýsing ásamt með öðrum aðgerðum gert að verkum að enginn hefur tapað krónu sem hann átti í innstæðum í íslensku fjármálastofnununum þó að yfir 95% af fjármálakerfi okkar hafi hrunið. Við höfum komist hjá bankaáhlaupum og við höfum varið kerfið og komið því aftur á fót (Forseti hringir.) og það er ekki svo lítið sem unnið er með því. Ætli reikningurinn hefði ekki orðið stór á hina hliðina ef þetta hefði ekki tekist?