140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það var ætlun mín með því að kalla eftir þessari umræðu í dag að ræða um ákvarðanir sem teknar voru af stjórnvöldum eftir hrun um að veita Sparisjóði Keflavíkur undanþágu til að starfa þrátt fyrir að hann uppfyllti ekki eiginfjárkröfur, um þá ákvörðun að stofna SpKef á ábyrgð ríkisins og halda þeirri stofnun í rekstri sem tapaði meira en milljarði í hverjum mánuði upp frá því, til að kalla fram upplýsingar um á hvaða grundvelli þessar ákvarðanir voru teknar o.s.frv. En það kemur í ljós að menn eru ekki tilbúnir að ræða þetta, menn eru ekki tilbúnir að horfast í augu við eigin ábyrgð í þessum málum. Menn vísa til forsögunnar, til þess að Sparisjóður Keflavíkur hafi verið illa rekinn. Við vissum það fyrir fram, þess vegna þurfti hann að skila inn rekstrarleyfi sínu og það er allt saman í rannsókn. Þeir sem hér hafa talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra, koma upp í pontu og segja: Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Við gerðum ekki annað en að treysta opinberum upplýsingum um stöðu sparisjóðsins, manni verður hugsað til ábyrgðar endurskoðenda o.s.frv.

Ekkert af þessu átti við þegar rætt var um ábyrgð fyrri ríkisstjórna og fyrri ráðherra, ekkert af þessu átti við þegar hv. þingmenn sem sumir hverjir hafa tekið hér þátt í umræðunni greiddu atkvæði með ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra út af sams konar málum. Þá átti fyrrverandi ráðherra að hafa haft nægar upplýsingar í höndunum til að taka réttar ákvarðanir. Þá var allt í lagi að vera vitur eftir á.

Við ræðum hér hvort gerð hafi verið mistök eftir hrun. Enginn heldur því fram að þau hafi verið gerð af ásetningi en við verðum að komast til botns í því hvort gerð hafi verið mistök eins og til dæmis þau að halda áfram rekstri sparisjóðs sem átti sér enga framtíð. Þegar núverandi fjármálaráðherra segir að menn hafi talið að SpKef hefði alla burði til að verða kjölfesta í sparisjóðakerfinu, en var síðan rekinn með meira en milljarðs tapi í hverjum mánuði (Forseti hringir.) upp frá því, er þá ósanngjarnt að spyrja: Voru menn ekki bara algjörlega úti á túni (Forseti hringir.) á kostnað skattgreiðenda? Er ekki kominn tími til að horfast í augu við það? Og eigum við ekki að reyna að aðskilja sögu (Forseti hringir.) Sparisjóðs Keflavíkur og ákvarðanir ráðherra og ríkisstjórnar eftir að hann (Forseti hringir.) lenti í rekstrarvanda?