140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef þá skoðun að við eigum að skoða þetta mál á eigin forsendum þrátt fyrir athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA. Ef við sjáum fram á að ástæða sé til að fara með dýpri hætti ofan í starfsemi sjóðsins og gera hugsanlega frekari breytingar á starfsemi hans tel ég að þingið eigi að gera það, það eigi ekki að bregðast við á þennan hátt sem ég tel einfaldlega ófullnægjandi.

Ég vek athygli á því að það var ýmislegt sagt varðandi afleiðingar af því að gera ekki hlutina um leið og Evrópa kallar, og ég man ekki betur en að þetta mál hafi verið rætt í félags- og tryggingamálanefnd fyrir um einu og hálfu ári síðan þar sem ég spurði hvers vegna lægi á að bregðast við og hvaða afleiðingar það mundi hafa ef það yrði ekki gert. Það var fullyrt að ef ekki yrði brugðist við hið snarasta mundi það hafa þær afleiðingar að EES-samningnum yrði hugsanlega rift. Ég man ekki til að það hafi gerst þó að þetta mál sé ekki enn þá komið í gegnum þingið.