140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir undirstrikaði í ágætri ræðu félagslegan þátt lánveitinga Íbúðalánasjóðs og talaði um neytendavernd í því sambandi. Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann nánar út í hvað hún telur að falli undir neytendavernd, hversu langt hún eigi að ganga og hvort hv. þingmaður sjái ekki að í hvert skipti sem settar eru einhverjar kvaðir á vöru breytist það jafnvægi sem áður ríkti og varan kann að hækka í verði. Það kann að leiða til hækkunar vaxta ef mjög sterkar kvaðir eru settar um neytendavernd í þessu sambandi.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann um þá breytingartillögu sem hún flytur og færði rök fyrir, en ég er ekki alveg viss um að breytingartillagan nái markmiði sínu. Það hefur margoft verið reynt að hafa eldveggi og annað slíkt í fyrirbærum eins og leigufélögum en það er alveg sama hvað menn gera. Þeir sem eru í stjórn stofnunarinnar eða Íbúðalánasjóðs vita að þeir eru að lána til annaðhvort eigin leigufélags eða til samkeppnisfélags og þeir sem eru í stjórn leigufélags Íbúðalánasjóðs vita líka að þeir geta leitað til stjórnarinnar ef þeir lenda í einhverjum vandræðum. Ég hugsa því að þetta sé meira á orði en á borði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hefði ekki verið eðlilegra að gera áætlun um að selja hreinlega þetta leigufélag til einstaklinga eða hóps einstaklinga.