140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum, um EES-reglur o.fl. Margsinnis hefur verið nefnt að ástæður þessa frumvarps eru athugasemdir frá EFTA og spurningar um það hvort starfsemi sjóðsins samræmist reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð.

Líka hefur komið fram að þetta mál var í umræðu félags- og tryggingamálanefndar á síðasta þingi, 139. löggjafarþingi. Þetta mál kemur seint inn núna á vorþingi og mér þykir enn sem við séum að rjúka í verkefni sem hefur verið á okkar könnu í langan tíma og það á við um athugasemdir EFTA. Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu er þess vegna mjög sérkennilegt, miðað við að við vissum á 139. þingi að við þyrftum að taka á þessu máli vegna þessara þátta, af hverju við erum ekki að stíga stærri skref og af hverju við tökum enn einu sinni upp í löggjöf þennan bútasaum þótt við vitum að innan tveggja ára þurfum við aftur að fara í þetta sama verkefni til að uppfylla þær reglur og þau skilyrði sem sett eru um ríkisaðstoð samkvæmt reglum EES-samningsins. Það er kannski þetta vinnulag, virðulegi forseti, sem maður áttar sig ekki alveg á.

Ég átti ekki sæti í félags- og tryggingamálanefnd og var ekki viðstödd þá umræðu sem þar fór fram en get hins vegar fullyrt að núna kom málið seint inn til velferðarnefndar og það hefur ekki fengið mikla umræðu. Það er einfaldlega rangt og það var tekið út á fundi í hliðarherbergi í ósátt vegna þess að nefndarmenn voru ekki sammála um hvert við stefndum og hvort ekki hefði átt að ganga lengra. Þannig er staða málsins og þess vegna stend ég hér enn við 3. umr. og ræði þetta mál.

Ég er þeirrar skoðunar eins og fram hefur komið hjá hv. framsögumanni að þetta svari ekki þeim kröfum sem gerðar eru til okkar vegna starfsemi Íbúðalánasjóðs og þeirrar ríkisaðstoðar sem hann hlýtur. Þetta uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til okkar. Þetta er skammtímalausn og við hefðum átt að nýta tímann betur, en við gerðum það ekki og þurfum innan tíðar að fara aftur í verkefnið. Það hefur komið fram hjá hv. framsögumanni meirihlutaálitsins, Lúðvíki Geirssyni, að innan tveggja ára þurfum við að fara í það.

Ég hef líka sagt og segi enn að ég tel það til bóta sem hér segir um hæfisskilyrði forstjóra og stjórnarmanna. Mér þykir hins vegar svolítið sérstök 1. gr. þessa frumvarps sem er breyting á 7. gr. laganna. Af hverju þarf að standa í 1. gr. að formaður og varaformaður stjórnar sem ráðherra skipar úr hópi stjórnarmanna skuli skipaðir til jafnlengdar embættistíma þess ráðherra sem skipar stjórnina ef við ætlum virkilega að vinna faglega og horfa til þeirra þátta um hæfisskilyrði stjórnarmanna og hæfisskilyrði forstjórans? Af hverju er ekki lengri pólitísk armslengd í þessari stjórn? Stjórnin er skipuð til ákveðins tíma, til fjögurra ára í senn, og ef faglega er staðið að vali stjórnarmanna og hæfi þeirra er metið á sama hátt og hæfi stjórnarmanna í öðrum fjármálafyrirtækjum á það ekki að vera bundið setu þess ráðherra sem skipar formann og varaformann. Ráðherrar koma og fara en stjórnina ætti að skipa á þeim faglega grunni að hún gæti setið í fjögur ár og menn yrðu þá að velta fyrir sér hvort eðlilegt þætti að endurskipa þá stjórn að fjórum árum liðnum eða setja hugsanlegt hámark á stjórnarsetu. En það er aukaatriði, þetta sýnir bara að við þurfum að fara gagngert í gegnum þetta mál frá A til Ö og skoða frekar það sem að baki liggur og það sem við þurfum að gera. Við eigum ekki að vera í þessum eilífa bútasaum í löggjöf sem þjónar skammtímasjónarmiðum okkar en ekki langtímasjónarmiðum.

Þess vegna er ég einfaldlega ósátt við þetta frumvarp og tel það ekki nægjanlega vel unnið af okkar hálfu vegna þeirrar staðreyndar að við þurfum innan tíðar, innan tveggja ára, að taka það upp aftur til að það samrýmist þeim reglum sem hér er verið að reyna að mæta. Menn geta talað um tímaskort en það er ekki sennileg skýring þegar við vitum að um þetta mál var fjallað á 139. þingi og þinginu þar á undan líka. Við þurfum að horfa til framtíðar og koma fram með heildstæða sýn á það hvernig við viljum að Íbúðalánasjóður starfi.

Ég geri líka, virðulegur forseti, verulegar athugasemdir við það að við erum að tala um að Íbúðalánasjóður með ríkisaðstoð geti þjónustað allt að 96,3% þeirra sem á þurfa að halda. Þá veltir maður fyrir sér þeirri samkeppni sem ætti að ríkja á fjármálamarkaði sem og annars staðar og að hér sé nú komið inn að Íbúðalánasjóður veiti ekki hærra lán en 50 milljónir. Ég verð að segja að mér finnst það dálítið há tala. Íbúðalánasjóður getur með ríkisaðstoð, eins og hann starfar, veitt allt að 50 millj. kr. lán til íbúðakaupa þótt það komi fram að veðið verði aldrei hærra en 40% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis.

Virðulegur forseti. Ég geri miklar athugasemdir við það leigufélag sem hér er íhugað að stofna og það er líka talað um að það sé tímabundið. Þessar nálganir til að uppfylla athugasemdir EFTA og svo þetta leigufélag sem hér á að stofna utan um þær íbúðir sem Íbúðalánasjóður hefur þurft að leysa til sín á undanförnum árum eru líka tímabundnar ráðstafanir af því að menn hafa ekki hugsað með hvaða hætti þeir ætla að vinna það í náinni framtíð. Við höfum ekki sýn á það hvernig við ætlum að fara með það húsnæði sem Íbúðalánasjóður á í dag. Ég tek fram, virðulegur forseti, að Íbúðalánasjóður þurfti að leysa til sín íbúðir löngu fyrir hrun þannig að þessar 2.000 íbúðir sem sá sjóður á í dag eru ekki bundnar hruninu. Það kemur ekki fram í nefndaráliti og það kom heldur ekki neitt fram á nefndarfundum um skiptingu á þessum 2.000 íbúðum, hversu margar eru á höfuðborgarsvæðinu og hversu margar á landsbyggðinni og hvernig þær dreifast um landsbyggðina en það væri fróðlegt að vita það.

Það kom heldur ekki fram og var ekki hægt að fá upplýsingar um það hvernig lán Íbúðalánasjóðs hafa skipst á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þó að beðið væri um þær. Í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því kemur þó fram að þessar breytingar á Íbúðalánasjóði og breytingar lána um 50 millj. kr. muni dekka rúmlega 99% þeirra lána sem veitt eru á landsbyggðinni og tæplega 94% þeirra lána sem veitt eru á höfuðborgarsvæðinu. Þá er komið þetta meðaltal sem menn fá sem er 96,4%.

Virðulegur forseti. Sú breyting sem hv. þm. Eygló Harðardóttir leggur fram um hvernig staðið skuli að stjórn þess leigufélags sem áætlað er að stofna og þess háttar er af hinu góða. Hún bætir vont svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Ég tel að við, og ég segi „við“ af því að við erum löggjafinn, munum lenda í vandræðum með þetta leigufélag sem Íbúðalánasjóður fær heimild til að starfrækja. Ég held að það verði miklir hagsmunaárekstrar á milli þess leigufélags annars vegar og annarra leigufélaga sem Íbúðalánasjóður er lánveitandi fyrir. Það breytir engu í sjálfu sér þó að við gerum vonda hluti skárri eins og með breytingartillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að mínu mati erum við samt að feta sérkennilega braut. Íbúðalánasjóður hefur fram til þessa og mun áfram geta veitt sveitarfélögum og ýmsum félagasamtökum lán á lægri vöxtum með samþykki löggjafans til að reisa íbúðarhúsnæði fyrir takmarkaðan hóp þegnanna og svo verður áfram en þetta leigufélag er ekki hugsað til þess. Það er á allt öðrum grunni, það er ekki fyrir afmarkaðan hóp fólks sem er tekjulágt eða þarf einhverra annarra hluta vegna, t.d. vegna örorku, að leita til sveitarfélaga eða slíkra félagasamtaka. Þetta er á allt öðrum grunni. Og ég hef verulegar áhyggjur af því að við fetum hér braut sem við sjáum ekki fyrir endann á og höfum ekki skoðað.

Virðulegur forseti. Mér finnst við vera að fara enn þá einu sinni með þessari ríkisstjórn og þankagangi hennar leið forsjárhyggju og miðstýringar. Það er svo fjarri mér að geta sæst á slíkt. Þess vegna lýsi ég því yfir að ég er mjög ósátt við þetta frumvarp. Ég greiddi því ekki atkvæði mitt við 2. umr. og ég mun ekki veita því brautargengi við 3. umr. Ég tel að flestallt í þessu frumvarpi megi laga og í ljósi þess að jákvæðni er sterkari þáttur í það minnsta í minni skapgerð en annarra mæli ég því bót sem vel er gert og tel að hæfi forstjóra og stjórnarmanna sem verið er að færa til jafns við hæfi stjórnarmanna og forstjóra í öðrum fyrirtækjum sé af hinu góða. En það er það eina.