140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Rétt eins og þingmaðurinn rakti í máli sínu er tilurð þessa frumvarps að rekja til rannsókna Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Eins og kunnugt er varð niðurstaða rannsóknarinnar sú að sjóðurinn nyti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts.

Ég heyrði að hv. þingmaður kom í lok ræðu sinnar inn á það sem kemur fram í minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, þ.e. að afstaða minni hlutans sé að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Því megi ekki kasta til höndunum við mótun þess lagaumhverfis sem sjóðurinn starfar við.

Við munum það að á árum áður var Sjálfstæðisflokkurinn mikill talsmaður þess að einkavæða Íbúðalánasjóð. Framsóknarflokkurinn var því mótfallinn. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort hún sé enn þeirrar skoðunar að hyggilegt væri að einkavæða Íbúðalánasjóð eða hvort ekki sé skynsamlegt, eins og kemur fram í minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði og hann beri að efla og styrkja. Mig langar til að fá sýn hv. þingmanns og kannski Sjálfstæðisflokksins á stöðu Íbúðalánasjóðs eins og landið liggur núna.