140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er þeirrar skoðunar að setja þurfi Íbúðalánasjóði mjög skýrar og afmarkaðar reglur. Lánasjóður á íslenskum húsnæðismarkaði sem rekinn er með ríkisaðstoð þarf að hafa skýrar og afmarkaðar reglur. Og þar sem við erum aðilar að EES-samningi og það er meira að segja markmið hæstv. ríkisstjórnar — sú sem hér stendur greiddi því reyndar atkvæði sitt að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið — þá hlýtur það að vera frumskilyrði að ríkisstjórnin feti þá braut að uppfylla þau skilyrði sem sett eru þar fyrir slíkum sjóði. Það er með ólíkindum að á þeim þrem árum sem þessi ríkisstjórn hefur starfað skuli hún ekki hafa farið þá leið að Íbúðalánasjóður uppfylli þær reglur sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir og við uppfyllum þá og tökum tillit til þeirra athugasemda sem EFTA hefur sent okkur frekar en að stíga alltaf þessi hænuskref.

Ég er ekki þeirrar skoðunar í augnablikinu, miðað við það ástand sem er á fjármálamarkaði og áður en settar eru skýrari og afmarkaðri reglur um fjármálamarkaðinn í heild sinni, að einkavæða eigi Íbúðalánasjóð. En það á hins vegar að setja honum afar ströng skilyrði. Ég held að við séum ekki, eins og ég hef margoft sagt, að stíga þau skref sem ætlast er til af okkur, við þurfum enn og aftur að fara í bútasauminn til að lagfæra þá hluti sem ekki eru í lagi.