140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er gott mál að skapa valkost við Víkurskarð og það er gott mál að stytta leiðir milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsveita. Þessi framkvæmd er því miður utan við hefðbundin og venjuleg vinnubrögð á þinginu og í samfélaginu um samgöngumál. Hún er hvorki einkaframkvæmd né ríkisframkvæmd, hvorki einkagöng né ríkisgöng heldur helst eins konar pilsfaldagöng.

Samgöngunefnd var ekki höfð með í afgreiðslu þessa máls eftir grundvallarbreytingar á því frá vori 2010. Aldrei síðan hefur verið gerð tilraun til samkomulagsumleitunar eða neins konar sáttalausna á þingi og málsmeðferðin hefur því miður verið frá upphafi til enda það sem í handbolta er kallað ruðningur.

Málið skapar sérkennilegt fordæmi frá reglum um ríkisábyrgð og setur vinnubrögð við samgönguframkvæmdir í framtíðinni í uppnám. Eins og mér er hlýtt til Þingeyinga og þess sem þingeyskt er get ég ekki sem alþingismaður brugðist skyldum mínum og stutt málið.