140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég óska Eyfirðingum og Þingeyingum og landsmönnum öllum til hamingju með að þetta mál er loksins komið til atkvæðagreiðslu. Allt frá árinu 1998 hafa Norðlendingar unnið samhentir að undirbúningi þessa verkefnis og í gildandi samgönguáætlun 2007–2010 var gert ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng yrðu fjármögnuð með sérstakri fjáröflun. Heimamenn voru reiðubúnir að greiða veggjöld, nokkuð sem Sunnlendingar voru ekki reiðubúnir að gera yfir Hellisheiði. Það er mikið og gott skref fyrir Alþingi að loksins sé komið í gegn mál sem snýr að uppbyggingu og ekki síst að þessi uppbygging skuli fara fram úti á landi.

Ég er glaður í dag og óska ríkisstjórninni til hamingju með þetta og mun að sjálfsögðu segja já í þessu góða máli.