140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

lengd þingfundar.

[15:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hefur hæstv. forsætisráðherra af sinni alkunnu auðmýkt, sáttfýsi og sveigjanleika ákveðið að slá á allar sáttaumleitanir og sagt að hér skuli þingið mæta til sumarþings. Ég tek því undir með þeim þingmönnum sem hér hafa komið upp og ég mótmæli því að hér sé fundur í kvöld án þess að augljóst sé hvaða tilgangi sá fundur eigi að þjóna og hver niðurstaðan eigi að vera af slíku. Við hljótum að þurfa að fara yfir ýmis mál og fjalla um þau og reyna að klára þau án þess að það sé gert í einhverjum spreng á kvöldin. Ef við ætlum að nýta sumarið vel væri kannski rétt að þingmenn færu heim og mundu undirbúa það og leita hugsanlega að samkomulagi um málin því það er eina leiðin sem vit er í.