140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum, EES-reglur o.fl. Í athugasemdum við frumvarp þetta er sagt að meginmarkmið frumvarpsins sé að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna starfsemi Íbúðalánasjóðs. Niðurstaða Eftirlitsstofnunarinnar er sú að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts. Eftirlitsstofnun EFTA hvetur íslensk stjórnvöld til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að lánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs verði í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Auk þeirra aðgerða sem íslenska ríkið hefur ákveðið að grípa til vegna þessarar niðurstöðu rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA virðist eiga að breyta ýmsum öðrum atriðum í kringum starfsemi Íbúðalánasjóðs. Talað hefur verið um að ein af meginröksemdunum fyrir Íbúðalánasjóði sé markaðsbrestur. Reyndar hefur orðið markaðsbrestur verið notað á mjög frjálslegan hátt í umræðunni. Það er sagt að orðið hafi markaðsbrestur við hrunið mikla árið 2008 en ég held að þeir sem hafa notað orðið í því sambandi hafi eitthvað misskilið það. Markaðsbrestur er einfaldlega lýsing á því fyrirbæri þegar einkamarkaðir ná ekki að sinna þeirri starfsemi sem þarf að sinna. Frægasta dæmið þar um er markaður um mengun og markaðir þar sem eru til staðar ytri áhrif þar sem gjörðir eins hafa áhrif á annan og þriðja aðila, en hvað um það.

Í frumvarpinu eru talin upp nokkur atriði sem því er ætlað að hafa áhrif á. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs, svo sem skipan stjórnar sjóðsins, hæfisskilyrðum stjórnarmanna og forstjóra og þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála. Þegar þær greinar sem snúa beint að þessu eru skoðaðar má ljóst vera að hér er verið að innleiða kröfur á stjórnarmenn og forstjóra sambærilegar þeim sem hafa verið innleiddar í önnur fjármálafyrirtæki, þ.e. um hæfisskilyrði, hvað menn mega og hvað menn mega ekki o.s.frv. Ég geri engar athugasemdir við það, það er bara hið besta mál að menn þurfi að vera hæfir en það skýtur reyndar svo skökku við að í þessum hæfisskilyrðum eru menn um leið gerðir háðir ákvörðun ráðherra með skipan stjórnar Íbúðalánasjóðs, það er ráðherra sem ræður í stjórnina og ráðherra ákveður jafnan þóknun stjórnarmanna. Þarna finnst mér að hæfisskilyrðin séu nokkuð sjálfkrafa skert. Ég hefði haldið að þar sem við höfum fyrirbærið sem heitir Bankasýsla ríkisins ætti ríkið að marka Íbúðalánasjóði eigendastefnu og síðan yrði það Bankasýsla ríkisins sem mundi skipa stjórnina og framfylgja í raun starfsemi sjóðsins þannig að Íbúðalánasjóður verði í armslengd, getum við sagt þótt það sé ljót þýðing og ljót sletta, frá stjórnmálamönnum.

Í öðru lagi er kveðið á um aukið eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs sem varðar til dæmis innri endurskoðun, eftirlitskerfi með áhættu og gerð ársreikninga. Þetta er af sama meiði og það sem ég rakti fyrst að hér er verið að gera auknar kröfur til eftirlits og um áhættu og það er með engu móti hægt að vera á móti því. Ef það er innan skynsamlegra marka er eftirlit af hinu góða og sérstaklega eftirlit með áhættu sem sjóðurinn býr við vegna þess að þegar allt kemur til alls er Íbúðalánasjóður fjármálastofnun.

Í þriðja lagi er kveðið á um að eitt af verkefnum Íbúðalánasjóðs eigi að vera að reka leigufélag með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Við þetta geri ég verulega athugasemd vegna þess að það er ljóst að slíkt leigufélag er í samkeppni við önnur leigufélög á einkamarkaði, og á íbúðamarkaði er ekki sá markaðsbrestur fyrir hendi sem þarf að vera til að slíkt félag þurfi að vera rekið. Þó er ágætt að tekið er fram að það skuli vera aðskilið hefðbundnum rekstri auk þess sem því er gefið undir fótinn að Íbúðalánasjóður muni hugsanlega reyna að selja leigufélagið eins fljótt og auðið er í einu lagi, vegna þess að starfsemi Íbúðalánasjóðs felst tæpast í því að reka leigufélag.

En eitt virðist ekki vera neitt fjallað um hérna, það er að formleg stofnun slíks leigufélags gengur raunverulega þvert á það sem er sagt vera megintilefni frumvarpsins, að bregðast við niðurstöðum rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Það er ljóst að þetta leigufélag verður í beinni samkeppni við önnur leigufélög og þar af leiðandi skekkist samkeppnisstaða og annað slíkt.

Í fjórða lagi eru gerðar breytingar er lúta að lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Lagðar eru til breytingar á veðhlutföllum eða lánshlutföllum og ýmsar aðrar breytingar.

Í fimmta lagi er kveðið á um breytingar á almennum lánum til einstaklinga á þann veg að Íbúðalánasjóði verði óheimilt að veita lán til kaupa á íbúðarhúsnæði þegar hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðs-veðbréfa er lægri en 40% af fasteignamati. Þetta er af sama meiði og hitt að hér er verið að styrkja reglur. Til að mynda má sjóðurinn, ef þetta frumvarp verður að lögum, ekki veita lán til eigna þar sem fasteignamat er umfram 50 millj. kr. Það kemur kannski ekki að sök vegna þess að hámarkslán Íbúðalánasjóðs er að ég held 20 millj. kr. En hér er greinilega verið að reyna að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í sjötta lagi eru lagðar til breytingar á lánveitingum vegna leiguíbúða og hér kemur fram sú nýbreytni að ekki megi lána til bygginga eða kaupa á leiguíbúðum ef félögin sem reka þessar leiguíbúðir eru rekin í hagnaðarskyni. Aftur á móti ef sveitarfélög, félög eða félagasamtök skilgreina leigufélögin sem félög án hagnaðar eða „non-profit organisations“ virðist Íbúðalánasjóður mega lána til þeirra. En þetta virðist rekast beint á leigufélagið sem Íbúðalánasjóður má reka vegna þess að ekki er kveðið á um að það megi ekki reka án hagnaðar. Hér virðist því eitthvað rekast á.

Í sjöunda lagi er kveðið á um heimild til að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sérstök vaxtakjör að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar vegna lána til leiguíbúða. Hér er enn og aftur fjallað um leiguíbúðir og ég skil það þannig að það verði hægt að lána sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sem ekki ætla sér að reka leiguíbúðir í hagnaðarsjónarmiði á einhvers konar niðurgreiddum vöxtum. En þá verða þessi leigufélög í samkeppni við önnur leigufélög sem í fyrsta lagi geta ekki fjármagnað sig hjá Íbúðalánasjóði, í öðru lagi búa við önnur vaxtakjör en Íbúðalánasjóður getur boðið upp á og þar af leiðandi get ég ekki annað en dregið þá ályktun að hér sé gengið þvert á niðurstöður rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi sjóðsins er varðar ríkisaðstoð, en á öðru sviði en áður. Mér sýnist sem svo að hér séu ákvæði sem munu leiða til þess að atriði er varða leigumarkaðinn munu rekast hvert á annars horn og muni leiða til þess að hugsanlega getum við átt von á annarri rannsókn frá Eftirlitsstofnun EFTA um starfsemi sjóðsins er varðar ríkisaðstoð, sem beinist þá fremur gegn leigufélögum og meðhöndlun leigufélaga og leigufélaginu sem sjóðurinn rekur sjálfur heldur en útlánastarfseminni beinlínis eins og þessar athugasemdir stofnunarinnar beinast að.

Ég mælist til þessa að yfir þetta verði farið aftur vegna þess að við erum auðvitað aðilar að EES-samningnum og ekki viljum við stöðugt vera að fá einhverjar athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA. Það er óhagkvæmt að vera stöðugt að breyta lögum og reglugerðum og það er mun betra að vanda vel til verka og hugsa málin vel fyrir fram. Þannig sleppum við við athugasemdir og fólkið í landinu og lögaðilar búa þá við vissu um hvernig umhverfið verður um ókomin ár. Þannig getum við byggt mun betur upp þann leigumarkað sem greinilega er ætlað að byggja upp með þessum greinum frumvarpsins. Ég verð því að segja að mér finnst þetta ekki vandað frumvarp, þrátt fyrir að í því séu margar mjög góðar greinar. Ég er til dæmis algerlega sammála því að það eigi að gera meiri kröfur um hæfisskilyrði og það er gott að það sé aukið eftirlit með áhættu o.s.frv. Reyndar geri ég þá athugasemd að ég hefði viljað að þetta yrði í armslengd frá pólitíkinni.

Nú er tími minn búinn og ég mun í (Forseti hringir.) annarri ræðu fjalla um önnur sjónarmið er varða þetta frumvarp og mælist til þess að verða settur aftur á mælendaskrá.