140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir hans ágætu yfirferð yfir frumvarpið. Ég gat ekki betur heyrt en að hann fyndi margt í því sem væri til framdráttar og til að bæta lagarammann í kringum Íbúðalánasjóð. Honum varð hins vegar tíðrætt um leigufélagið sem hér er gerð tillaga um sem er tímabundin ráðstöfun til að bregðast við vanda sem blasir við. Öllum er auðvitað ljóst að Íbúðalánasjóður hefur ekki verið í eignarhaldi, hann hefur verið lánasjóður og skipt miklu sem slíkur en hann hefur lent í þeirri stöðu eftir hrun að sitja uppi með um og yfir 2.000 eignir vítt og breitt um landið. Þar af eru um 800 í útleigu í dag en aðrar eru í mismunandi ástandi.

Þessi staða er sett upp við mjög sérstakar aðstæður til að bregðast við þessum vanda. Það má vissulega hafa ýmsar skoðanir á því og það hafa menn. Það hefur verið kynnt fyrir Eftirlitsstofnun EFTA sérstaklega að fara fram með málið í þennan farveg í takmarkaðan tíma og skilja algerlega á milli stjórnar, umsjónar og reksturs þessara húsa og svo eignarhaldsins sem sannarlega er á hendi Íbúðalánasjóðs.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji aðrar leiðir skynsamlegri, og hverjar þá, til að verja hagsmuni Íbúðalánasjóðs. Hér er auðvitað um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða, þær skipta milljörðum, og það dembir enginn þessum eignum öllum í sölu einn, tveir og þrír. Menn hljóta að reyna að gera það sem skynsamlegast er gagnvart markaði. Ég tek undir með honum að það sé rétt að gera það í áföngum (Forseti hringir.) og bútum en þessi leið er til að verja stöðu sjóðsins.