140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að mestum hluta tekið undir þær vangaveltur og hugmyndir sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi í þessu sambandi. Vandinn er sá að við höfum ekki haft nein alvöruleigufélög sem hafa haft burði á markaðnum hér og þess vegna hefur leigumarkaðurinn verið veikur og fólk ekki getað treyst því að eiga þar til frambúðar rétt og stöðu í sanngjarnri leigu í góðu húsnæði.

Leiguíbúðir sveitarfélaga eru allt annað dæmi og þjónustuverkefni, en almennur leigumarkaður hefur ekki orðið til. Margir ruddust fram á markaðinn og ætluðu sér stóran hlut í þeim verkum á árunum fyrir hrun. Menn misnotuðu líka aðgengi að ódýru lánsfjármagni með því að taka niðurgreidd lán og fóru síðan með þær eignir sem áttu að vera leiguíbúðir í beina sölu. Það er verið að girða fyrir það líka með þessum lögum og tryggja það að við beinum í réttar áttir lánsfjármagninu sem er á sérstökum kjörum.

Við sitjum uppi með þennan stóra bunka af íbúðum og þurfum að verja þær eignir. Það að skapa hér grundvöll fyrir það að bankar, lífeyrissjóðir og aðrir aðilar séu tilbúnir að koma inn og stofna jafnvel opið hlutafélag um slíkt rekstrarfélag og eignaumsýslu á leiguíbúðum þarf ákveðinn tíma og ákveðna gerjun. Það gerist ekki á einni nóttu. Það er mikil umræða í gangi um þessi efni og stærstu sveitarfélög landsins eru þátttakendur í því til að geta þá horft til svæða og uppbyggingar á hentugum stöðum undir slíkar leiguíbúðir. Á meðan tel ég að við þurfum að leysa úr þessum bráðavanda með því að fara þessa millileið, en í mínum huga er hún algerlega tímabundin ráðstöfun og þarf helst að standa sem allra styst.