140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að fagna því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sýna þessu máli mikinn áhuga og hafa rætt það síðan í morgun, og núna eftir nýliðnar atkvæðagreiðslur um Vaðlaheiðargöng eru þeir búnir að raða sér á mælendaskrá fram eftir kvöldi til að ræða málefni og stöðu Íbúðalánasjóðs.

Rétt er að fram komi vegna þess sem sagt hefur verið hér af hálfu einstakra þingmanna flokksins að þetta hafi verið unnið með hraði á snubbóttan hátt að það er alls ekki svo. Málið fékk ágæta yfirferð og umræðu í velferðarnefnd eins og öll þau mál sem þar eru til lykta leidd. Hins vegar liggur kannski ágreiningurinn í því að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa viljað fara lengra í endurskoðun og uppstokkun en þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Hér er verið að taka á ákveðnum þáttum sem gerðar hafa verið athugasemdir við og menn hafa viljað stíga þar ákveðin, hæfileg og eðlileg spor miðað við aðstæður.

Hitt er annað að okkar bíður ítarleg umræða og yfirferð á stöðu og framtíðarhlutverki Íbúðalánasjóðs en þá er líka rétt að bíða eftir því að við fáum þau gögn og upplýsingar í hendur sem er verið að vinna, meðal annars í ítarlegri rannsókn og úttekt á stöðu sjóðsins. Það má því reikna með og eðlilegt að búast við því að við tökum þá umræðu þegar að því kemur.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi að staðan varðandi fasteignamat væri ólík eins og við þekkjum og 50 millj. kr. matið verandi lán væri umdeilanlegt. Það er rétt. Fasteignasalar hafa mótmælt því og hafa talið það allt of lágt á sama tíma og samtök fjárfesta og fjármálastofnana hafa talað í allt aðra átt og talið að þarna væri um allt of háa tölu að ræða. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverjar hugmyndir eða tölur inn í þessa umræðu.