140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum varðar Íbúðalánasjóð og við komumst ekki hjá því að ræða það í stóru samhengi og vísa ég þá til þeirrar stöðu sem er uppi hjá fólki í landinu og því fólki sem er í þessum svokallaða skuldavanda. Því miður hefur lítil umræða verið — og við þurfum að bæta úr því — um þá skýrslu sem fjármálaráðherra skilaði um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána samkvæmt beiðni nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þar eru mjög áhugaverðar upplýsingar og þær tengjast þessum málum beint. Í skýrslunni á bls. 7, töflu 3, geta menn í rauninni séð kjarnann í vandanum, þ.e. eiginfjárhlutfall í upphafi árs 2012 miðað við 5–35% eiginfjárhlutfall á kaupdegi. Það er augljóst þegar menn skoða þetta að það fólk sem er í langmestum vanda er það fólk sem tók lán á árinu 2008. Ég ætla ekki að lesa öll árin því að hér eru árin 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008, en ef við berum saman til dæmis árin 2004 og 2008 þá er verið að bera saman stöðu einstaklinga sem keyptu sér íbúð annars vegar 1. janúar 2004 og hins vegar 1. janúar 2008. Ef við skoðum dálkinn þar sem verið er að skoða í hvernig stöðu viðkomandi einstaklingur er ef hann hefur lagt 5% af kaupverði inn með eigið fé, þá á hann núna, ef hann keypti árið 2004, 12,1% í íbúðinni. Ef hann keypti hins vegar 1. janúar 2008 þá er neikvæð staða hans 40%. Ef við skoðum 15% eiginfjárhlutfall, þ.e. 15% sem viðkomandi hefur sett inn í íbúðina, þá á viðkomandi einstaklingur eða hjón 21,4% í íbúðinni, þ.e. þeir sem keyptu 2004, en hjá þeim sem keyptu 1. janúar 2008 er 15% eignin orðin neikvæð um 25%.

Lítil umræða hefur verið um það að á árinu 2008, og svo sem á stórum hluta árs 2007, þó aðallega 2008, var aðeins einn aðili sem lánaði og ég hef fengið upplýsingar um að það var Íbúðalánasjóður. Og ekki aðeins að hann væri að lána heldur var hann að gefa í, ef þannig má að orði komast. Þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, stóð fyrir því og hreykti sér af því að gefa í að lána, og voru lánaðir í júlí 2008 nærri 7 milljarðar. Sambærileg tala í júlí 2007 var 6 milljarðar en í september árið 2008 voru það 5,5 milljarðar. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig ástandið er hjá þessu fólki núna sem tók þessi lán.

Lítill gaumur hefur verið gefinn að þeirri staðreynd að á þeim tíma þegar bankarnir voru hættir að lána fólki til húsnæðislána og við hefðum mátt eiga von á því að hið opinbera yrði til baka í því af augljósum ástæðum, gerðist hið gagnstæða. Þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem var með Íbúðalánasjóð áfram þrátt fyrir að stjórnarsáttmáli þeirrar ríkisstjórnar kvæði á um annað lagði á það áherslu að veita mikil lán. Og það fólk sem var svo óheppið að taka þau lán er í mestum vanda núna.

Við höfum lítið rætt það að sú skuldastefna sem við höfum haft í húsnæðismálum er auðvitað ein af ástæðunum fyrir þeim skuldavanda sem er í dag. Öll áherslan af hálfu hins opinbera hefur verið á að ýta undir skuldsetningu, bæði með hærra lánshlutfalli, eins og 90% lánunum, og sömuleiðis með vaxtabótum.

Nú kynni einhver að segja: Er það ekki bara gott? Er einhver önnur leið til? Já, nærtækara hefði verið að fara þá leið að ýta frekar undir eignamyndun en skuldsetningu. Það er bara einn galli við skuldir og þó að það sé bara einn galli þá er hann alveg gríðarlega stór. Og gallinn við skuldir er sá að þær þarf að greiða til baka. Við erum núna þess vegna í þeirri stöðu að þeir sem voru með gengislán hafa fengið mestu leiðréttinguna. Það hefur ekkert að gera með nein afskipti ríkisstjórnarinnar, öðru nær. Mér sýnist sem svo að þar sem ekki var gert ráð fyrir neinum fyrirvörum í samningum milli gömlu og nýju bankanna, að gengislánaleiðréttingarnar þar sem gengislán voru dæmd ólögmæt, það gangi svona yfir, skerði möguleika bankanna til að leiðrétta önnur lán. Við erum núna í þeirri stöðu að það fólk sem er í mestum vanda er í Íbúðalánasjóði, alla vega stór hluti þess, þar sem leiðréttingar í bönkunum hafa ekki að fullu gengið yfir hjá Íbúðalánasjóði. Þetta fólk er oftar en ekki fast inni í Íbúðalánasjóði. Það eru miklar áhyggjur hjá fólki af því að við munum sjá nýtt verðbólguskot. Það er í rauninni alveg sama hvað fræðingar ræða til dæmis um afnám gjaldeyrishaftanna. Almennt er talið að það muni hafa verðbólguáhrif þegar við losum um þau hvenær sem það verður og að auki er umtalsverð verðbólga í landinu. Eðlilega er fólk hrætt við að þetta muni koma fram í lánunum og þrátt fyrir að það sé rétt að hér sé um jafngreiðslulán að ræða, þessi verðtryggðu lán sem eru hjá Íbúðalánasjóði og á öðrum stöðum, þá hækkar það samt sem áður mjög höfuðstólinn og ef menn eru með neikvæða eign í íbúðum sínum þá hafa menn eðli málsins samkvæmt áhyggjur af því að þeir festist inni til lengri tíma.

Við erum núna í þeirri stöðu, og það hefur komið fram, að inngreiðslur eru meiri í Íbúðalánasjóð en útgreiðslur úr honum. Fólk er að greiða upp lán en ekki að taka lán hjá Íbúðalánasjóði og það er mjög áhugaverð staða. Þá erum við með þennan ríkisbanka, virðulegi forseti, sem við erum búin að greiða um 33 milljarða með. Það liggur fyrir að við þurfum að setja, ef ég man rétt, um 12 milljarða í viðbót til að uppfylla það eiginfjárhlutfall sem sjóðurinn þarf að hafa, þ.e. 5%, sem er 3 prósentustigum lægra en í hefðbundnum viðskiptabönkum, og við erum með verstu kjörin á markaði hjá ríkisbankanum. Þetta er orðin mjög sérstök staða.

Í ofanálag erum við með óeðlilega stöðu á markaðnum vegna þess að hið opinbera og síðan bankarnir eru með mjög stóran hluta af eignum þar sem eitthvað af þeim er leigt út en þær eru í það minnsta ekki seldar, við sjáum það. Ég sá að Bloomberg-fréttaveitan vakti athygli á því að menn hafa áhyggjur af eignabólu á Íslandi sem á sér auðvitað enga stoð í raunveruleikanum. Það er ekkert í umhverfinu sem kallar á það að nú ætti að vera eignabóla í fasteignum, þvert á móti hefði fasteignaverð átt að lækka verulega. En þegar við erum með tæplega þúsund íbúðir, sýnist mér, í eigu banka, sparisjóða og lífeyrissjóða, og þá er eftir að taka dótturfélag bankanna með inn í það, og síðan erum við með tæplega 1.800 hjá Íbúðalánasjóði, þá erum við með tæplega 3 þús. íbúðir í eigu banka og Íbúðalánasjóðs. Ekki er verið að setja þessar eignir á markað enda mundi það væntanlega hafa þau áhrif að lækka verðið. Síðan erum við í þeirri stöðu, kannski fyrst og fremst út af gjaldeyrishöftunum og sömuleiðis út af skattlagningarstefnu ríkisstjórnarinnar, að fólk er að fjárfesta í íbúðum á ákveðnum svæðum vegna þess að því finnst ekki vænlegur kostur að hafa fjármuni sína annars staðar, t.d. í bönkum. Innstæður í bönkum hafa minnkað alveg gríðarlega. Það kemur að stærstum hluta til út af ofurskattstefnu ríkisstjórnarinnar.

Þess vegna er mjög erfitt fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð. Þær eru of dýrar miðað við þau laun sem fólk hefur og vísa ég þá sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins. Maður kynni því að spyrja: Erum við að koma fram með frumvarp sem muni koma eitthvað til móts við þessa stöðu? Ef við skoðum frumvarpið eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem snúa að skipan í stjórn, hæfisskilyrðum stjórnarmanna, forstjóra o.s.frv. Það er auðvitað góðra gjalda vert, en það er áhugavert að sjá að rekstrarkostnaður sjóðsins mun aukast um 30 millj. kr. vegna þessa. Það er fjármagnað með vaxtamun sjóðsins.

Í öðru lagi er verið að auka eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs, einkum hvað varðar innri endurskoðun, eftirlitskerfi o.s.frv. Það mun kalla á fjölgun stöðugilda Fjármálaeftirlitsins sem þýðir 22 millj. kr. aukningu á umfangi Fjármálaeftirlitsins á ári sem Íbúðalánasjóður mun þá greiða. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég mundi ætla í þeirri gríðarlegu aukningu á stöðugildum í Fjármálaeftirlitinu að menn gætu hugsanlega fundið einhverjar leiðir til að hagræða þar. Það er sú stofnun sem ekki þurfti að hagræða neitt, þvert á móti, á undanförnum árum.

Í þriðja lagi er verið að tala um að setja á leigufélag með íbúðarhúsnæði fyrir Íbúðalánasjóð. Þar erum við að fara inn á mjög hæpnar brautir. Ég veit ekki hvort það hefur verið skoðað eitthvað sérstaklega hvort það samræmist samkeppnislögum. En það segir sig sjálft að ef risi eins og ríkið fer inn á þennan veika leigumarkað, sem gæti auðvitað verið stærri ef við gætum selt þessar íbúðir, þá er endalaus hætta í því. Maður heyrir það strax hjá leigumiðlurum að menn séu hér að fara í að undirbjóða, leigumiðlarar, og menn gætu hugsað sér að það væri bara gott af því að þetta yrði lægri leiga fyrir fólk, en það kynnu að verða einhver vandræði í tengslum við það því að ef þeir aðilar sem leigja núna út íbúðir geta ekki staðið undir þeim rekstri þá kæmi það beint niður á Íbúðalánasjóði sem hefur lánað í það. Þá erum við að bíta svolítið í skottið á sjálfum okkur hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Mér sýnist að við séum komin með uppsafnaðan gríðarlegan vanda hjá Íbúðalánasjóði. Ég get ekki séð með fullri virðingu fyrir frumvarpinu að menn taki á því með neinum hætti. Sumar breytingarnar hér eru minni háttar en kannski er stóra málið það að ríkið fari núna af fullum þunga inn á leigumarkaðinn með eignir sínar. Ég get ekki séð miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram eða þau fylgigögn sem eru með frumvarpinu að menn séu búnir að greina það hvernig menn sjái fyrir sér hvernig það mál muni verða. Það að ríkið komi með 2 þús. íbúðir inn á leigumarkaðinn er nærtækasta samlíking við fíl í postulínsbúð og það er eins gott að hugsa það mál alla leið áður en þau skref eru stigin.