140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum nú áfram með umræðu um frumvarp til laga, sem kemur frá stjórnarflokkunum, um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Þetta frumvarp tengist aðild okkar að EES-samningnum og er megintilefni þess, eins og kemur fram í frumvarpinu og í athugasemdum við frumvarpið sjálft, það að íslenska ríkið þarf að bregðast við niðurstöðu rannsóknar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, á starfsemi Íbúðalánasjóðs, en sú ákvörðun á rót sína að rekja til júlímánaðar á síðasta ári þar sem Eftirlitsstofnunin dregur fram að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar, m.a. í gegnum vaxtaniðurgreiðsluformið. Íbúðalánasjóður nýtur undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hvatti íslensk stjórnvöld með ákvörðun sinni til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að lánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs yrði í samræmi við skuldbindingar Íslands í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. samning okkar þar. Þetta eru mjög skiljanlegar athugasemdir.

Ég tek undir með félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum, þar á meðal hv. þingmanni og síðasta ræðumanni, Tryggva Þór Herbertssyni, sem velti fram ýmsum sjónarmiðum eins og hlutverki og tilgangi Íbúðalánasjóðs. Það höfum við rætt í gegnum tíðina og ljóst er að hinar pólitísku skoðanir og stefnur stjórnmálaflokkanna hafa ekki alltaf verið einhlítar og það er kannski ekkert óeðlilegt að þær séu mismunandi. Ég held að það skipti máli að ákveðinn grundvöllur sé til staðar, að ákveðið félagslegt kerfi sé til staðar til að hjálpa þeim sem minna mega sín, þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, ungu fólki, fólki sem er búið að vera í námi o.s.frv., að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er spurning hvernig það er gert. Það er hægt að gera það í gegnum banka eins og Íbúðalánasjóður er. Það er líka hægt að breyta honum, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti á, í heildsölubanka sem mundi þá tryggja það að einkaaðilar á markaði, þ.e. viðskiptabankarnir sem núna eru á markaði, mundu með ákveðnum grunni tryggja þá félagslegu stöðu.

Þegar maður les í gegnum þetta mál sér maður að ESA hefur áhyggjur af því að ríkið sé í rauninni að niðurgreiða ákveðna þætti hjá Íbúðalánasjóði sem eru á samkeppnissviði. Það má kannski segja að þetta sé ekkert ólíkt því sem er hjá annarri ríkisstofnun sem ég og fleiri þekkjum vel, þ.e. Ríkisútvarpinu. ESA hefur margítrekað komið með ábendingar þar um og menn hafa reynt að bregðast við því eins og framast er unnt en við verðum einfaldlega að viðurkenna að ekki hefur alltaf verið pólitískur vilji, frú forseti, til að breyta hlutverki Ríkisútvarpsins í þá veru sem ábendingar og ákvarðanir ESA hafa gefið okkur til kynna, þ.e. á þá leið sem ESA hefur hvatt okkur til að skoða sérstaklega. Það varðar afnotagjöldin, síðan nefskattinn svokallaða, sem er kannski ekki beint nefskattur því að ekki greiða allir landsmenn nefskattinn, 16 ára og eldri gera það til sjötugs, og síðan er ákveðið tekjuviðmið þannig að það er tryggt að þeir sem litlar tekjur hafa greiða ekki nefskatt. Þetta er reyndar fyrirbæri sem þyrfti að endurskoða betur með tilliti til þeirrar reynslu sem við höfum fengið í því efni.

Varðandi Ríkisútvarpið er ljóst að hluti af afnotagjöldunum fyrrum og nú þessum nefskatti hefur meðal annars farið í ákveðinn samkeppnisrekstur Ríkisútvarpsins. Við því hefur verið brugðist, eins og ég kom að áðan, og það sama gildir nú um Íbúðalánasjóð.

Það er því skiljanlegt að við ræðum þetta frumvarp. Það er margt ágætt í því og ég tek undir hluta af því sem kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanns Framsóknarflokksins, Eyglóar Harðardóttur, sem bendir á að mikil hætta sé á hagsmunaárekstrum þar sem Íbúðalánasjóður verður í beinni samkeppni við leigu- og húsnæðissamvinnufélög á markaði sem fá lán hjá sjóðnum. Síðan dregur hún réttilega fram að samkeppnisstaða slíkra félaga er afar bág gagnvart félagi í eigu ríkisins og ljóst er að samkeppnisstaða félaganna sem eru nú þegar á markaði verður verri ef ekki er tryggður fullkominn stjórnunar- og rekstrarlegur aðskilnaður. Þetta eru mjög skýrar ábendingar hjá hv. þingmanni minni hlutans sem ég vil leyfa mér að taka undir.

Dregið er fram í nefndaráliti meiri hlutans að hlutverk sjóðsins, þ.e. hvernig hann heldur utan um þær íbúðir sem hann á, skiptir máli. Mér skilst að þær hafi verið um 1.750 í upphafi þessa árs og séu núna í þessum mánuði eða næsta að nálgast 2.000 miðað við þær upplýsingar sem ég hef. Ríkið verður auðvitað að bregðast við því að móta sér stefnu um hvernig Íbúðalánasjóður á að vera til lengri tíma á þessum markaði þannig að samkeppnisstöðu þeirra félaga sem ég kom inn á áðan verði ekki raskað. Þess vegna má í sjálfu sér taka undir þá grundvallarbreytingu á starfsemi Íbúðalánasjóðs að tryggja að eitt af hlutverkum hans verði að eiga og reka leigufélag með þær eignir sem sjóðurinn hefur eignast í gegnum aðfarar- og fullnustugerðir.

Ég sakna hins vegar heildarmyndarinnar varðandi Íbúðalánasjóð. Í fjárlögum árið 2011, minnir mig, tryggðum við Íbúðalánasjóði 32 milljarða til að auka eiginfjárhlutfallið og ljóst er að hann þarf að minnsta kosti 10–12 milljarða til viðbótar til að geta uppfyllt kröfur sem hann þarf að standa undir.

Frú forseti. Við sjáum vísbendingar um ákveðna erfiðleika á íbúðalánamarkaði þegar inngreiðslur til sjóðsins eru meiri en útgreiðslur. Svo virðist vera sem fólk sé á vissan hátt fast með lán sín og um leið eignir sínar. Þetta er hluti af því stóra verkefni sem ríkisstjórnin hefur engan veginn verið fær um að leysa, sem er skuldavandi heimilanna. Skuldavandinn tengist náttúrlega Íbúðalánasjóði. Margt hafi verið gert til að koma til móts við fólk í skuldavanda, ég ætla ekki að draga dul á það, ég ætla ekki að detta í þann gír að segja að ekkert hafi verið gert, það er ekki þannig. Margt hefur verið gert en það hefur bara ekki verið nóg og menn hafa ekki verið með heildarmyndina á hreinu, kannski hafa þeir verið uppteknir við það á þingi að reyna að leysa þær deilur og þær erjur sem hafa verið á milli stjórnarflokkanna og allir þekkja.

Við getum talað um stjórnarskrármálið þar sem stjórnarflokkarnir voru engan veginn á sama máli. Við getum talað um rammaáætlun. Það er hægt að tala um fiskveiðistjórnarmálin og veiðiskattsmálið sem við höfum haft hér til umræðu. Auðvitað hafa farið miklir kraftar af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna og forustumanna þeirra í það að reyna að laga og tala niður þau átök sem hafa verið innan stjórnarflokkanna. Þess vegna erum við komin í þessar miklu ógöngur með þingið. Ég heyrði það fyrr í dag að stjórnarþingmenn sumir hverjir eru þegar farnir að hóta því að beita svonefndri 64. gr. þingskapalaga þess efnis að níumenningar hið minnsta geti breytt dagskrá þingsins. Það ákvæði hefur reyndar ekki verið notað í sögu þingsins og yrði þá enn einn bautasteinninn sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafa beitt sér fyrir, að grípa inn í lýðræðislegar reglur og vald sem stjórnarandstaðan hefur til að ræða mál. Komið hefur fram að svona inngrip í dagskrána hefur ekki verið með neinum hætti síðan 30. mars 1949.

Ég hefði gjarnan viljað hafa skýra sýn í þessu máli varðandi Íbúðalánasjóð og stefnumótun hans til lengri tíma. Ég vil líka taka undir þau sjónarmið sem nefndarmenn okkar í velferðarnefnd, þar á meðal hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hafa dregið fram um hvernig við viljum sjá Íbúðalánasjóð. Ég dreg fram það sem ég kom að í upphafi máls míns, að það skiptir máli að hér séu félagsleg úrræði fyrir fólk sem á í erfiðleikum, fyrir fólk sem er að koma sér upp sinni fyrstu íbúð, að það hafi aðgang að fjármagni, að lánum og lánsfjármagni til að taka þessi fyrstu skref sem eru svo mikilvæg í lífi hverrar fjölskyldu og einstaklings. Gerum við það í gegnum Íbúðalánasjóð? Já, það er hægt að segja að að hluta til gerum við það þó að ég treysti fyllilega þeim viðskiptabönkum sem eru á markaði til að sinna þeim skyldum að uppfylltum ákveðnum reglum og forsendum sem þeir vinna eftir og lifa með. Ég treysti fyllilega þeim aðilum á markaði. Í sjálfu sér þarf ekki Íbúðalánasjóð til en engu að síður held ég, eins og staðan er og hefur verið í gegnum tíðina, að mikilvægt sé að tryggja þeim hóp sem þarf á félagslegum úrræðum að halda til íbúðarkaupa slík úrræði. Út á það gengur álit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem varar okkur Íslendinga við því að nota skattpeninga, fjármagn frá almenningi, í að niðurgreiða starfsemi Íbúðalánasjóðs sem er á samkeppnismarkaði.

Þetta frumvarp er kannski ekki mikið meira en tilraun til að nálgast þetta sjónarmið. Ég hefði gjarnan viljað að frumvarpið fengi meiri umfjöllun í velferðarnefnd til að knýja fram stefnu, sem núverandi ríkisstjórn og þá vonandi líka allir stjórnmálaflokkar á þingi gætu náð að sameinast um, um það hvernig við búum umhverfi Íbúðalánasjóðs til lengri tíma litið. Það ætti að vera hægt að ná samkomulagi um það þó að mönnum sé ekki tamt á þessum síðustu dögum að komast að niðurstöðu, frekar er farið í að breyta hefðum, venjum og fara jafnvel gegn reglum á þingi varðandi þingsköp o.s.frv.

Ég vil þó taka undir að það sem er að mínu mati ágætt í þessu frumvarpi, þó að það liggi ekki beint á því er samt gott að það sé komið fram, eru hæfisskilyrði og hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki þar sem farið er inn á hvernig æðsta stjórn Íbúðalánasjóðs á að vera. Það er eðlilegt að æðstu stjórn Íbúðalánasjóðs verði breytt í takt við það sem gengur og gerist í fjármálafyrirtækjum. Ég held að þetta sé ágætisbreyting og eins og kemur fram í 3. gr. frumvarpsins er skýrt kveðið á um hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra og farið yfir það sem gildir um önnur fjármálafyrirtæki á markaði.

Að öllu samanteknu, herra forseti, tel ég ágætt að þetta mál sé komið fram. Ég hefði viljað sjá skýrari reglur um starfsemi Íbúðalánasjóðs, að við mundum tala um þann raunveruleika sem blasir við okkur Íslendingum í tengslum við Íbúðalánasjóð og gætum þá reynt, kannski í samhengi við þetta frumvarp, að nálgast þann vanda sem ótal fjölskyldur á Íslandi búa við sem er skuldavandi heimilanna en sá skuldavandi tengist ekki síst verðtryggðum lánum sem voru meðal annars tekin árið 2008 hjá Íbúðalánasjóði. Sá hópur er að margra mati í einna verstu stöðunni af viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs.

Herra forseti. Ég hvet til þess að þetta verði skoðað betur, að þetta verði eitt af þeim málum sem við fáum tækifæri til að ræða og fara betur yfir þó að vissulega séu ákveðin atriði til batnaðar.